Golf

Fyrsti dagur Ólafíu á opna bandaríska í máli og myndum: „Ég fann sjálfstraustið aftur“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. S2 Sport
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er í flottum málum eftir góðan fyrsta hring á opna bandaríska meistaramótinu í golfi en hún er í 25. sæti af 156 kylfingum.

Ólafía lék fyrsta hringinn á pari vallarins en hún var með tvo fugla og einn skramba. Ólafía paraði því fimmtán af holunum átján.

Þorsteinn Hallgrímsson og Friðrik Þór Halldórsson tökumaður eru staddir út í Alabama og fylgdust með hringnum hjá okkar konu.

Mótið er eitt það allra stærsta sem haldið er ár hvert í Bandaríkjunum. Að þessu sinni fer mótið fram á Shoal Creek í Alabama.

Ólafía Þórunn byrjaði að spila seinni níu og endaði því hringinn á níundu holunni. Hér fyrir neðan má sjá Þorstein fara yfir hringinn hjá Ólafíu.

Þorsteinn ræddi einnig við okkar konu eftir þessar átján holur. „Mér leið alveg ágætlega en það kom smá kaflar þar sem mér var órótt. Við unnum úr því og ég fann sjálfstaustið aftur,“ sagði Ólafía Þórunn.

Það var yfir 30 stiga hiti og sól í Shoal Creek í gær og það gerði íslenska kylfingnum erfitt fyrir.

„Ég var farin að slá svolítið of langt um tíma af því að það var mjög heitt,“ sagði Ólafía Þórunn sem fékk litla hvíld því hún byrjar snemma í dag.

Annar dagur Ólafíu Þórunn hefst klukkan 7.02 að bandarískum tíma eða klukkan 12.02 að íslenskum tíma. Það verður hægt að fylgjast með honum á Vísi.

Hér er farið yfir holur 10 til 13
Hér er farið yfir holur 16 til 18.
Hér er farið yfir holur 2 til 5.
Hér er farið yfir holur 7 til 9 auk þess sem rætt er við Ólafíu sjálfa



Fleiri fréttir

Sjá meira


×