Fyrir tæpu ári síðan hófst reksturinn formlega í bílskúrnum hjá henni Elsu, sem tekur sex skref frá heimilinu í vinnuna á hverjum degi og er með einn starfsmann í vinnu. Hún gerir sex til sjö hundruð súkkulaðiplötur daglega en hugmyndin að framleiðslunni kom þegar hún tók við rekstri kaupfélagsins í Súðavík og fannst vanta eitthvað með kaffinu.
„Kaupfélagið hér í svona litlu þorpi er félagsmiðstöð. Byrjaði að búa til smá, svo jókst það og fólk vildi kaupa og svo óx það eitt skref í einu.“
Og nú er súkkulaðið selt á tuttugu sölustöðum en stærstu sölustaðirnir eru Bláa lónið og Rammagerðin enda súkkulaðið vinsælt hjá ferðamönnum en einnig hjá Íslendingum sem gjafavara og þá ekki síst blönduðu öskjurnar sem Elsa segir vera dekurmolana sína.

Elsa vinnur með umhverfið, notar hráefni úr náttúrunni og myndin á umbúðunum er af fjallinu Korfa, sem er beint fyrir ofan húsið. Þetta er sannkallað Súðavíkursúkkulaði.
„Við erum fá, við erum 120 sem búum í þorpinu. Þetta er okkar, ekki bara ég heldur okkar og það er unnið með það,“ segir Elsa.
En hvernig nálgast maður uppskriftina?
„Þú nálgast hana ekkert. Ekki nema þú brjóstist inn í bankahólfið í Landsbankanum á Ísafirði.“
Kann enginn að gera þetta súkkulaði nema þú?
„Nei.“