„Eliza Reid er ekki embættismaður, fer ekki til Rússlands í opinberum erindagjörðum og mun ekki eiga fundi með þarlendum ráðamönnum. Ferð hennar fellur hins vegar undir verkefni hennar og verksvið sem forsetafrú, meðal annars átakið “Team Iceland”. För hennar er því greidd af skrifstofu forseta Íslands eins og gildir um aðrar utanlandsferðir af svipuðu tagi,“ segir í svari skrifstofu forseta vði fyrirspurn fréttastofu.
Þá er tekið fram að tveir eldri drengir forsetahjónanna munu einnig fylgjast með leik Íslands og Argentínu í Moskvu og greiða forsetahjónin kostnað af ferð þeirra.
Forsetinn fer ekki að gamni sínu
Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands mun sniðganga HM líkt og aðrir ráðamenn. Hann sagði í viðtali við Vísi fyrir skemmstu að þó hann njóti ferðafrelsis þegar um íþróttaviðburði er að ræða, þá gangi hann ekki gegn vilja ríkisstjórnar og meirihluta Alþingis að gamni sínu með því að mæta á HM í Rússlandi.Í tilkynningu frá ríkisstjórn Íslands í mars síðastliðnum kom fram að sú afstaða að íslenskir ráðamenn yrðu ekki viðstaddir HM í Rússlandi væri liður í þátttöku í samstilltum aðgerðum vestrænna ríkja vegna efnavopnaárásarinnar sem er talin alvarlegt brot á alþjóðlögum og ógnun við öryggi og frið í Evrópu. Er það gert til að mótmæla eiturárás Rússa í breska bænum Salisbury en árásin beindist gegn Sergei Skrípal, rússneskum gagnnjósnara á eftirlaunum, og dóttur hans.