Körfubolti

Sjáðu Tryggva Snæ æfa hjá Phoenix Suns

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Tryggvi var til skoðunar hjá Phoenix Suns í gær
Tryggvi var til skoðunar hjá Phoenix Suns í gær NBA
Nýliðavalið í NBA deildinni fer fram þann 21.júni og verður íslenski landsliðsmiðherjinn Tryggvi Snær  Hlinason á meðal þátttakenda þar.

Lið NBA deildarinnar nýta dagana fram að valinu til að skoða leikmenn og sum lið fá leikmenn til æfinga hjá sér.

Tryggvi Snær er nú til skoðunar hjá Phoenix Suns en hann æfði þar ásamt Dusan Ristic í gær.

Stutt myndband frá æfingunni var birt á heimasíðu NBA og má sjá með því að smella hér. Þar er einnig rætt stuttlega við Tryggva.

Suns á fyrsta valrétt í nýliðavalinu í ár en eiga sömuleiðis valrétt númer 31 og 59 og gætu nýtt annan þeirra til að velja Tryggva. Samkvæmt orðrómum vestanhafs eru Brooklyn Nets sömuleiðis áhugasamir um Bárðdælinginn stóra og stæðilega.

Saga Tryggva er strax farin að vekja athygli körfuboltaáhugamanna í Bandaríkjunum eins og sjá má á Twitter umræðum um kappann.

Fari svo að Tryggvi Snær verði valinn og hann spili í NBA verður hann aðeins annar Íslendingurinn til að afreka það. Hinn er Pétur Guðmundsson sem var valinn í þriðju umferð nýliðavalsins árið 1981 af Portland Trail Blazers. Hann lék svo síðar með Los Angeles Lakers og San Antonio Spurs.

Þá var Jón Arnór Stefánsson á mála hjá Dallas Mavericks árið 2003 en hann lék ekki deildarleik með liðinu. 

NBA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×