Fótbolti

Cristiano Ronaldo yngri byrjar miklu betur hjá Juventus en pabbinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo yngri og Cristiano Ronaldo eldri.
Cristiano Ronaldo yngri og Cristiano Ronaldo eldri. Vísir/Getty
Cristiano Ronaldo er búinn að spila þrjá leiki með Juventus í Seríu A án þess að ná að skora. Allt aðra sögu er að segja af átta ára stráknum hans.

Feðgarnir skiptu báðir yfir í Juventus í haust. Juventus keypti pabann á 99 milljónir punda frá Real Madrid og strákurinn fylgdi auðvitað með í kaupanum enda nýbúinn að halda upp á átta ára afmælið sitt.

Cristiano Ronaldo eldri er enn markalaus þrátt fyrir þrjá leiki, 270 mínútur og 23 skot. Enginn leikmaður í fimm bestu deildum Evrópu hefur tekið fleiri skot án þess að skora. Í raun er Ronaldo þar með tíu skota forystu.

Það vakti athygli á dögunum þegar Cristiano Ronaldo var að tala um strákinn og draum sinn um að hann yrði atvinnufótboltamaður eins og hann. Miðað við byrjun Cristiano Ronaldo yngri hjá Juventus þá eru góðar líkur á að sá draumur pabbans rætist.

Cristiano Ronaldo yngri skoraði nefnilega fjögur mörk í fyrsta leiknum sínum með níu ára liði Juventus og eplið virðist ekki hafa fallið langt frá Eikinni. Það þarf heldur ekki að taka það fram að Cristiano Ronaldo yngri spilar að sjálfsögðu í teyju númer sjö eins og faðir sinn.









Cristiano Ronaldo eldri var upptekinn í vinnunni hjá Juventus og missti því af leiknum en stjúpmanna stráksins, Georgina Rodriguez, var með honum og lét pabbann örugglega vita fljótlega eftir leikinn.

Markaskor stráksins í fyrsta leik hefur ekki vakið síður athygli en markaleysi pabbans.

Nettröllin eru auðvitað komin á fullt í fyndnum samanburði á feðgunum enda ekkert nýtt að menn noti hvert tækifæri til að gagnrýna Cristiano Ronaldo eldri.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×