Öryrkjabandalag Íslands stóð fyrir málþingi í dag þar sem því var velt upp hvort félagsleg réttindi fatlaðs fólks séu í raun tryggð. Þessa daganna er verið að undirbúa heildar breytingar á almannatryggingakerfinu en áætlun ríkisstjórnarinnar er að tillaga með breytingunum verði tilbúin fyrsta nóvember næstkomandi.

Þuríður segir öryrkja hafa verulegar áhyggjur af því að stjórnvöld kasti til höndum við frumvarpsgerðina vegna þess hver tíminn er naumur þar til leggja á frumvarpið fram.
„Það má ekki, undir engum kringumstæðum , koma verr niður á þessu fólki en það gerir í dag, því staða fatlaðs fólks í dag hérna á Íslandi er verulega bágborin,“ segir Þuríður.
Öryrkjabandalagið á fulltrúa í samráðshópi um breytt framfærslukerfi. Þuríður segir að stjórnvöld verði einnig að horfa til atvinnumarkaðarins sem verði að aðlaga sig aðstæðum öryrkja.

Hún segir að í þróun dómaframkvæmdar síðustu ára hjá Hæstarétti, þá virðist hann veigra sér við því að fjalla um efnahagsleg, félagsleg- og menningarleg réttindi fólks meðal annars með vísan til skilyrða í réttarfarslögum.
„Fatlað fólk á erfitt með að fá efnislega umfjöllun um úrlausn málefna sinna,“ segir Sigurlaug Soffía Friðþjófsdóttir, lögfræðingur.
Sigurlaug segir að samningur um jöfn réttindi fatlaðs fólks sem þegar er samþykktur, en ekki lögfestur, ætti að nægja til þess að tryggja að Hæstiréttur myndi líta til samningsins.
„Við höfum því miður einn dóm þar sem að, þar sem ekki er búið að lögfesta samninginn þá skapaði hann ekki fötluðu fólki nægilega vernd,“ segir Sigurlaug.