Ráðherra lagði frumvarpið fram til að bregðast við ákvörðun úrskurðarnefndar umhverfis-og auðlindamála sem felldi úr gildi starfsleyfi tveggja fiskeldisfyrirtækja sem starfrækt eru á sunnanverðum Vestfjörðum. Í frumvarpinu felst heimild ráðherra málaflokksins til að gefa út rekstrarleyfi til bráðabirgða.

Hún greindi frá því að nefndin hefði fengið á sinn fund Baldur P. Erlingsson og Jóhann Guðmundsson frá atvinnuvegaráðuneytinu, Viktor S. Pálsson frá Matvælastofnun, Guðmund Inga Guðbrandsson umhverfis-og auðlindaráðherra auk aðstoðarmanns hans Orra Pál Jóhannson, Sigríði Auði Arnardóttur frá umhverfis og auðlindaráðuneytinu, Jóhannes Karl Sveinsson, Kristínu Haraldsdóttur og Trausta Fannar Valsson.
Gagnrýna vinnubrögðin harðlega
Sjávarútvegsráðherra lagði frumvarpið fram við upphaf þingfundar í dag og var málið samþykkt sem fyrr segir á tólfta tímanum í kvöld. Nokkrir þingmenn stjórnarandstöðunnar gagnrýndu málsmeðferðina, hún hefði ekki verið vönduð.„Hvers vegna þurfti að keyra þetta mál í gegn helst á einum sólarhring?“ spurði Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar notuðu þetta sem dæmi um mistök sem gætu orðið við lagasetningu þegar mál eru keyrð í gegnum þingið á of skömmum tíma.
Mikill hraði leiði af sér lélega löggjöf
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður viðreisnar, og Smári McCarthy, þingmaður Pírata, voru á sama máli og Helga Vala og sögðu að ekki hefði verið staðið að málinu svo sómi væri að.Smári sagði að þegar mál væru keyrð í gegnum þingið með slíkum hraða væri viðbúið að það myndi leiða af sér lélega löggjöf. Það væri fyrirsjáanlegt að mistök yrðu gerð.
Þorgerður sagði að þeirri tillögu um að fá fleiri gesti fyrir atvinnuveganefnd hefði verið hafnað. Það hefði verið til bóta að fá fleiri sérfræðinga á fund atvinnuveganefndar sem hefðu ekki komið að málinu áður eins og fulltrúa frá fiskeldisfyriræki og veiðirétthafa.
Hún benti jafnframt á að á þeim skamma tíma sem atvinnuveganefnd kom saman hefðu sérfræðingar komið með ábendingar sem hafi skipt miklu máli fyrir frumvarpið. Hún velti því fyrir hvaða ábendingar aðrir sérfræðingar hefðu mögulega komið á framfæri hefðu þeir fengið tækifæri til þess.