Deilurnar um Teigsskóg og framtíðarlegu Vestfjarðavegar um Gufudalssveit tóku óvænta stefnu í sumar þegar kynnt var sem sáttaleið tillaga norskrar verkfræðistofu um veg þvert yfir mynni Þorskafjarðar með áttahundrað metra langri brú, kölluð R-leið, og var fullyrt að hún myndi kosta svipað.

„Nei, það er engin sátt um R-leið í Reykhólahreppi,“ segir Kristján Þór Ebeneserson, bóndi á Stað í Reykhólasveit.
„Og þetta er bara sorglegt að okkar mati að þeir skyldu voga sér að nota þetta orð,“ segir Rebekka Eiríksdóttir.

„Við höfum auðvitað bara áhyggjur af okkar framtíð. Þetta er í rauninni framtíðarbreyting á öllu hér og allt óafturkræft. Af því að við erum með fullt af ræktuðu landi og við erum með æðarvarp fyrir neðan. Og það er alveg sama hvort verður tekið af okkur, það verður alltaf geysilegt tjón fyrir okkur,“ segir Rebekka.

„Hér er gríðarlegt votlendi og fuglalíf, - og hríslur og fleira í Berufirði og Skáldstöðum, sem við getum ekki ímyndað okkur annað en að þurfi að skoða eitthvað betur.
Við ætlum kannski ekki að segja að það sé betra að eyðileggja annarra manna land. En við vitum allavega hver skaðinn okkar er,“ segir hún.
„Og það er þó allavega búseta hér. Það er engin búseta á Hallsteinsnesi eða Grónesi,“ segir Kristján Þór en Teigsskógarleiðin færi um þær jarðir.

„Já, það er alveg magnað og helvíti hart að við þurfum að fara að eyða sauðfjárinnlegginu okkar til að verja okkur á meðan sveitarfélagið þiggur styrki frá auðmönnum,“ segir Kristján.

„Þetta er líka svolítið sorglegt að sveitarstjórn skuli vera að taka afstöðu gegn íbúum, en afstöðu með einhverjum birkihríslum,“ segir Kristján.
„Af því að við þurfum auðvitað öll að standa saman í svona litlu samfélagi,“ segir Rebekka.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: