„Starfsemin hefur gengið miklu betur en við þorðum að vona í upphafi og aðsóknin hefur verið miklu meiri, við erum í skýjunum með þetta“, segir Bárður Örn Gunnarsson, framkvæmdastjóri Lava. Safnið sem er fræðslu og upplifunarsýning um eldvirkni og jarðskorpuhreyfingar á Íslandi var opnað í júní 2017 sem stærsta eldfjallarsýning landsins.
„Okkar gestir eru 80 – 90% erlendir gestir, aðallega Bandaríkjamenn, Bretar og Þjóðverjar, sem eyða löngum tíma á safninu og drekka í sig upplýsingar um eldgosasöguna að allt sem henni tengist“, bætir Bárður Örn við.

Óskarinn til hönnuða safnsins
Nýlega var tilkynnt um að Basalt Arkitektar og Gagarín hlytu hin virtu Red Dot verðlaun fyrir Lava eldfjalla- og jarðskjálftamiðstöðina á Hvolsvelli en þetta eru ein eftirsóttustu hönnunarverðlaun sem veitt eru. Sýningin var verðlaunuð í tveim flokkum, fyrir sýningarhönnun og gagnvirkni. Alls bárust dómnefndinni 8.610 innsendingar frá 45 þjóðum.„Þetta er Óskarinn fyrir hönnuðu og eitthvað sem hefur aldrei gerst áður á Íslandi. Það þykir mikill heiður að fá þessu verðlaun og núna eru það ekki bara ein verðlaun, heldur tvenn, sem er algjörlega frábært,“ segir Bárður Örn.