Liðið æfði í keppnishöllinni í dag og sagði einn þjálfara liðsins, Bjarni Gíslason, æfinguna hafa farið brösulega af stað en hann var sáttur með hvernig stelpurnar kláruðu æfinguna.
„Æfingin byrjaði pínu þung, aðeins mikil óvissa að finna hvernig áhöldin eru. Þær fundu fyrir miklum breytingum, það er mikið hitastig hérna miðað við á Íslandi og þá verða þau miklu mýkri áhöldin,“ sagði Bjarni að æfingu lokinni.
„Með tímanum þá kom liðið sem við þekkjum frá Íslandi meira og meira inn í æfingarnar. Við kláruðum æfinguna alveg gríðarlega vel. Mjög gaman að sjá jákvætt andrúmsloft koma út úr æfingunni.“

„Markmið númer eitt var að allir kæmu heilir út úr æfingunni og það tókst bara alveg. Þær fengu allar að prófa áhöldin, það tókst, og það leið öllum vel með æfinguna. Öll markmiðin tókust.“
Ísland var hársbreidd frá því að taka Evrópugullið í Slóveníu fyrir tveimur árum en tapaði því í hendur Svía.
„Við erum með fólk sem er að skoða andstæðingana. Þetta eru sterkir keppinautar. Svíarnir hafa alltaf verið mjög sterkir og þetta verður bara barátta og almennileg keppni, það vitum við,“ sagði Bjarni Gíslason.
Kvennaliðið keppir í undanúrslitum á morgun, keppni hefst klukkan 16:30 að íslenskum tíma og verður bein textalýsing frá mótinu á Vísi.