Að sögn Jóhannesar Stefánssonar, framkvæmdastjóra Lindarvatns ehf., fundust viðarbútar vestan við Landsímahúsið, í kverkinni upp við Aðalstræti 11 þar sem Landsbankinn var áður í viðbyggingu frá 1967. Þar undir er mikið af ýmsum lögnum, meðal annars ljósleiðari sem þurfti að fjarlægja vegna jarðvegsskipta og steypuvinnu sem er að fara í gang.

Minjastofnun fól Völu Garðarsdóttur fornleifafræðingi, sem stýrði minjauppgreftri í Víkurgarði, að kanna málið. Vala segir ekki rétt sem fram hafi komið í Morgunblaðinu að fundist hafi kista og beinagrind undir Landsímahúsinu. „Það var ekki það sem gerðist heldur fundum við kistubrot í lagnaskurði,“ segir Vala. Engin bein hafi fundist.
„Við mælum upp, teiknum, ljósmyndum og skráum og mokum svo yfir því þetta er náttúrlega ekki á framkvæmdasvæðinu heldur var bara verið að skipta um lagnir og setja í hólka,“ segir Vala. Aðspurð segist hún telja kistuna vera frá sautjándu eða átjándu öld.

Sóknarnefndin taldi sig eiga aðild að málinu, meðal annars þar sem Dómkirkjan hefði eignar- og umráðarétt yfir landi Víkurgarðs.
„Hinn 15. ágúst 2018 var móttekið til þinglýsingar skjal undirritað af ráðherra Íslands, dags. 21. október 1904. Kunngjörir ráðherra þar að Reykjavíkurkaupstað sé afsöluð lóð kirkjugarðs í Reykjavík er lagður hefði verið niður á árinu 1837. Var skjalið fært inn í þinglýsingarbækur 6. september 2018. Getur sóknarnefnd Dómkirkjunnar því ekki byggt aðild sína á eignar- og umráðarétti yfir Víkurgarði,“ segir úrskurðarnefndin meðal annars.