Innlent

Vinna að því að fá leyfi til að flytja íslenskt hrútasæði inn á evrópskan markað

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Hrútur að störfum á Sauðfjársæðingastöð Suðurlands.
Hrútur að störfum á Sauðfjársæðingastöð Suðurlands. Vísir/Magnús Hlynur
Sauðfjársæðingastöð Suðurlands vinnur nú að því að fá leyfi til flytja íslenskt hrútasæði inn á evróskan markað vegna mikils áhuga á íslensku sauðkindinni.

Það er ekki bara á Íslandi sem sauðkindin er ræktuð hjá sauðfjárbændum því víða erlendis er mikill áhuga á ræktun íslensku sauðkindarinnar, meðal annars í Bandaríkjunum.

Nú eru það lönd innan Evrópusambandsins sem vilja líka fá kindur til sín en þá þarf að flytja hrútasæði til þeirra landa og er nú unnið að því fá leyfi til þess.

Þorsteinn Ólafsson.Vísir/Magnús Hlynur
Þorsteinn Ólafsson, dýralæknir og starfsmaður Sauðfjársæðingastöðvar Suðurlands, þekkir málið. „Það eru aðilar í útlöndum sem hafa áhuga á að fá gæði íslenska fjárins í fjárstofnana sína, til dæmis Norðmenn sem eru með skylt fé sem hefur ekki farið eins langt í ræktuninni eins og íslenska féð.“

En hvað myndi það þýða ef leyfi fyrir útflutningi á íslensku hrútasæði fengist til landa innan Evrópusambandsins?

„Við höfum heyrt raddir frá Bretlandseyjum um löngun í að fá íslenskt fé. Við fáum alltaf öðru hverju fyrirspurnir annars staðar að úr Evrópu og um leið og við getum flutt út til eins lands í Evrópusambandinu þá er búið að opna leið fyrir öll löndin þannig að þeir sem hafa áhuga á að fá íslenskar kindur geta fengið sæði alla vega.“

Er það ekki spennandi?

„Það getur verið spennandi valkostur sums staðar,“ segir Þorsteinn Ólafsson, dýralæknir og starfsmaður Sauðfjársæðingastöðvar Suðurlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×