Tekjur Wow air jukust um 31% frá janúar til september. Tapið það sem af er ári er hins vegar 145% af tapi síðasta árs. EBITDA félagsins fór einnig úr því að vera jákvæð um 8,8 milljónir dollara fyrstu níu mánuði síðasta árs í að vera neikvæð um 18,9 milljónir nú, um 2,3 milljarða íslenskra króna.
Eiginfjárhlutfall flugfélagsins var 7% við lok fyrstu þriggja ársfjórðunga.
Í tilkynningu sem Wow air birti á vefsíðu sinni í kvöld kemur fram að staða félagsins hafi versnað frá skuldabréfaútboði sem það hélt í september. Félagið vinni nú að langtímafjármögnun sinni.
Fyrirhuguð kaup Icelandair á Wow air fóru út um þúfur í gær en sama dag var tilkynnt um að bandaríski eignastýringarsjóðurinn Indigo Partners sem frumkvöðull í lágfargjaldaflugfélögum stofnaði ætlaði sér að fjárfesta í fyrirtækinu.
Wow air kennir neikvæðri umfjöllun um fjárhagslega heilsu fyrirtækisins meðal annars um að afkoma þess hafi versnað. Hækkandi eldsneytisverð hafi einnig sett aukinn þrýsting á félagið.
Skúli Mogensen fór yfir samkomulagið við Indigo Partners og atburði síðustu vikna í viðtali sem birtist á Vísi fyrr í dag sem sjá má hér fyrir neðan.