Ekki hefur verið upplýst hversu stóran hlut Indigo Partners kaupir í WOW air en samkomulagið er háð áreiðanleikakönnun.
Indigo Partners er staðsett í Phoenix í Bandaríkjunum en félagið sérhæfir sig í fjárfestingum í lággjaldaflugfélögum og er aðalfjárfestirinn í Tiger Airways í Singapúr og Spirit Airlines í Flórída. Þá er Indigo einn stærsti hluthafinn í ungverska lággjaldaflugfélaginu Wizz air.
„Við þekkjum þá ansi vel og höfum þekkt þá lengi og sum af þeirra flugfélögum. Þannig að þetta hefur verið í undirbúningi lengi en fór á mikið skrið undanfarnar vikur,“ segir Skúli um viðræðurnar við Indigo Partners.
Vonaðir þú að Icelandair myndi falla frá kaupunum á WOW air þegar þú vissir af áhuga Indigo Partners? „Ja, það er náttúrulega þannig að ég get ekki neitað því að ég er mjög ánægður með þessa niðurstöðu og tel Indigo vera frábæran partner fyrir okkur.“
Skúli fundaði með Sigurði Inga Jóhannssyni samgönguráðherra í ráðuneytinu klukkan tvö í dag til að ræða stöðu og horfur WOW air. Hann vildi ekki ræða við okkur eftir fundinn en veitti viðtal á sjötta tímanum.
Hvers vegna attir þú fund með samgönguráðherra? „Það er bara mjög eðlilegt að upplýsa ráðherra samgöngumála um stöðu mála og við áttum bara mjög gott spjall um það.“
Er rekstur WOW air tryggður næstu vikur og mánuði? „Já, við teljum þetta vera mjög gott skref í rétta átt og vinnum hörðum höndum að því að klára það sem þarf.“
Bjartsýnn með framhaldið
Ítrekað hefur verið fjallað um óvissu um horfur WOW air á síðustu mánuðum. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að ríkisstjórnin hafi fylgst með málinu úr fjarlægð. „Eins og komið hefur fram í fréttum hafa orðið vendingar hvað varðar WOW air og það er kominn nýr erlendur aðili sem fyrirtækið á í viðræðum við og ég vonast auðvitað til að allt muni þetta enda farsællega,“ segir Katrín.En hvað vill Skúli Mogensen segja við fólk sem að hefur áhyggjur af því að ferðast með félaginu vegna umræðu um óvissu um framtíðarhorfur þess undanfarnar vikur og mánuði? „Ég held að við höfum tekið núna risaskref í rétta átt. Vissulega erum við núna í miðri áreiðanleikakönnun, við þurfum að klára ákveðin skilyrði en það er verið að vinna mjög hratt í þeim efnum og ég er mjög bjartsýnn með framhaldið.“
Lengra viðtal við Skúla þar sem hann fer yfir samkomulagið við Indigo Partners, atburði síðustu vikna og rekstrarhorfur WOW air.