Bílskúr við Miðtún á Selfossi er vinnustaður Brynju Davíðsdóttur, hamskera eða uppstoppara eins og oftast er talað um. Á hillunum má sjá fullt af fallegum dýrum sem hún hefur stoppað upp og marga hrútshausa en þeir eru aðal vinnan hjá Brynju þessa dagana, enda líklegt að einhverjir fái innpakkaðan hrútshaus eða fugl í jólagjöf. Brynja lærði uppstoppun í Skotlandi.
„Ég er hér að vinna önd og svo ég hef verið að finna hrútshausa undanfarnar vikur og það er fullt af fuglum sem bíða mín í uppstoppun fyrir jól“, segir Brynja.
En út á hvað gengur vinnan hennar?
„Frá minni hálfu gengur þetta út á náttúrufræðslu, það hefur alltaf snúist um það að fólk, og sérstaklega börn fái að umgangast og hafa nálægt sér þessa hluti sem þau geta þá spekúlerað í og hugsað þá um lífríkið og það sem er í kringum og það sem við þurfum að hugsa vel um. Það hefur alltaf verið hugsunin á bak við þetta hjá mér“.
![](https://www.visir.is/i/7A0167785974412AC97BAA0CCF30A98F53A15C6C9204C69502AEE637C8AF67B1_713x0.jpg)
En aftur af hrútunum, hvað getur Brynja sagt okkur um þennan fallega hrútshaus?
„Hann hét Prúður þessi og það var leitað til mín áður en hann var felldur og ég spurð hvort ég gæti stoppað hann upp. Þetta var mikill dálætishrútur á bænum, geðslagið var alveg sérstakt og það var mikið kjassað við hann. Ég vona að eigendurnir fyrirgefi mér að koma með hann hér í fréttirnar en þau báðu mig sérstaklega að hafa hann með ljúft augnaráð þannig að karakterinn skilað sér“, segir Brynja.
![](https://www.visir.is/i/52D65B2264B139CD7458CEEACB75B4806696F68E7888DFF3261664711CFD60D2_713x0.jpg)