Viðskipti innlent

Veitingastaðurinn á Hótel Holti opnaður á ný eftir þriggja mánaða lokun

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Rekstur verður í höndum eigenda hótelsins, að því er segir í tilkynningu.
Rekstur verður í höndum eigenda hótelsins, að því er segir í tilkynningu. Vísir/Vilhelm
Veitingastaðurinn á Hótel Holti, Holt Restaurant, opnaði á ný í byrjun desember eftir að honum var lokað í ágúst síðastliðnum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá rekstraraðilum veitingastaðarins.

Sjá einnig: Veitingastaðnum á Hótel Holti var lokað í gær: „Þetta fer allt vel að lokum“



Greint var frá því í lok ágúst að veitingastaðnum hefði verið lokað. Talsmaður þáverandi rekstraraðila neitaði að tjá sig um lokunina í samtali við Vísi á sínum tíma en eigandi Hótels Holts sagði þó að allt yrði reynt til að koma til móts við tryggan kúnnahóp hótelsins.  

Kúnnahópurinn virðist geta tekið gleði sína á ný en veitingastaðurinn hóf aftur starfsemi nú í byrjun desember. Í tilkynningu segir að rekstur verði í höndum hótelsins og verður yfirkokkur Ægir Friðriksson sem áður starfaði á Café Flóru og Satt á Reykjavík Natura.

Fjölmörg listaverk prýða veggi hótelsins og gefst gestum nú kostur á leiðsögn um listasafnið.Mynd/Hótel Holt
Á hinum nýopnaða veitingastað verður jafnframt lögð áhersla á „framúrskarandi þjónustu og mat“, að því er segir í tilkynningu. Að auki mun gestum hússins nú bjóðast leiðsögn um listasafn Hótels Holts, sögu þess og stofnendur.

„Með þessu er verið að leggja áherslu á sérstöðu hótelsins og bjóða heildstæða upplifun fyrir gesti okkar. Hótel Holt hefur að geyma listaverk eftir margra af þekktustu listamönnum þjóðarinnar og skipar þar með mikilvægan sess í menningararfi Íslendinga,“ er haft eftir Sólborgu Lilju Steinþórsdóttur, hótelstjóra.

Sjá einnig: Þungt hljóð í veitingamönnum í Reykjavík

Tæpt ár er nú síðan eigendur Dill Restaurant, KEX hostels og Hótels Holts gerðu með sér samkomulag um veitingarekstur á Hótel Holti og að staðurinn myndi heita Holt. Staðurinn var opnaður í febrúar síðastliðnum en lokað hálfu ári síðar, líkt og áður segir. Hótel Holt var stofnað árið 1965 og hefur síðan þá verið í eigu sömu fjölskyldunnar.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×