Handbolti

Norsku stelpurnar í fimmta sæti á EM eftir fjórða stórsigurinn í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Veronica Kristiansen.
Veronica Kristiansen. Vísir/EPA
Norska kvennalandsliðið í handbolta er ennþá eitt það besta í Evrópu en fór bara alltof seint af stað á EM í Frakklandi. Norsku stelpurnar tryggðu sér fimmta sætið á mótinu með níu marka sigri á Svíum í dag, 38-29.

Fimmta sætið er mikil vonbrigði fyrir Þóri Hergeirsson og stelpurnar hans en þetta er í fyrsta sinn síðan á EM 2000 sem norsku stelpurnar spila ekki um verðlaun. Þetta er líka slakasti árangur liðsins undir stjórn Þóris. Liðið endaði líka í fimmta sæti á HM í Serbíu 2015.

Veronica Kristiansen var markahæst í norska liðinu með 6 mörk úr 7 skotum, Linn Jörum Sulland skoraði 5 mörk og þær Stine Bredal Oftedal, Henny Reistad og Sanna Solberg voru allar með fjögur mörk.

Besti maður liðsins var aftur á móti tvíburasystir Sanna Solberg, markvörðurinn Silje Solberg, sem varði 18 skot eða 50% skota sem komu á hana í leiknum. Silje var líka valin besti maður vallarins af mótshöldurum.

Norska liðið fór stigalaust inn í milliriðilinn en vann þar alla þrjá leiki sína með ellefu mörkum að meðaltali. Norska liðinu vantaði aðeins eitt mark í viðbót til að komast í undanúrslitin á kostnað Rúmeníu.

Þórir Hergeirsson var í miklum vandræðum með liðið sitt í riðlinum þar sem þær norsku töpuðu tveimur af þremur leikjum og lágu meðal annars með átta mark mun á móti Rúmeníu. Útlitið var því svart fyrir keppni í milliriðlum og á endanum varð þessi slæma byrjun á mótinu norska liðinu að falli.

Norsku stelpurnar sýndu aftur á móti styrk sinn með því að vinna fjóra síðustu leiki sína á mótinu með samtals 42 mörkum eða 10,5 mörkum að meðaltali í leik.

Sænsku stelpunar hengu í þeim norsku framan af og náðu meðal annars að jafna metin í 10-10. Þá komu sjö norsk mörk í röð á aðeins sjö mínútum og norska liðið komið í 17-10. Noregur skoraði síðan alls 22 mörk í fyrri hálfleiknum og var átta mörkum yfir í hálfleik, 22-14.

Sigur norsku stelpnanna var aldrei í hættu í seinni hálfleiknum sem norska liðið vann þá bæði 16-15.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×