Erlent

Hótar því að stöðva fjárveitingar vegna skógarelda

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump ásamt Gavin Newsom, ríkisstjóra Kaliforníu (til vinstri), Bock Long frá FEMA, Jody Jones, borgarstjóra Paradise og Jerry Brown, þáverandi og nú fyrrverandi ríkisstjóra Kaliforníu.
Donald Trump ásamt Gavin Newsom, ríkisstjóra Kaliforníu (til vinstri), Bock Long frá FEMA, Jody Jones, borgarstjóra Paradise og Jerry Brown, þáverandi og nú fyrrverandi ríkisstjóra Kaliforníu. AP/Evan Vucci
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur hótað því að stöðva fjárveitingar til Kaliforníu vegna skógar- og kjarrelda. Í tísti sagði forsetinn að milljarðar dala af alríkisfé hefðu verið sendir til Kaliforníu vegna skógarelda, sem hefðu aldrei orðið ef rétt hefði verið haldið á spöðunum í skógarmálum Kaliforníu.

Hann sagðist hafa skipað Almannavörnum Bandaríkjanna, FEMA, að útvega Kaliforníu ekki meira fé úr neyðarsjóðum vegna skógarelda, taki forsvarsmenn Kaliforníu sig ekki saman í andlitinu.

„Þetta er skammarlegt ástand í lífum og peningum,“ skrifaði forsetinn og sagðist hann telja ólíklegt að ástandið myndi skána í Kaliforníu.

Upprunalega skrifaði Trump „forrest“ tvisvar sinnum en hann eyddi því tísti og birti nýtt.

FEMA hefur ekki svarað fyrirspurnum Washington Post vegna þess að stofnunin er ein þeirra alríkisstofnanna sem eru ekki starfræktar að fullu vegna deilunnar um múr á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó.



Þetta er alls ekki í fyrsta sinn sem Trump sendir Kaliforníu tóninn vegna elda. Þá er vert að taka fram að alríkisstjórn Bandaríkjanna hefur umsjón með flestum skógum Kaliforníu og verstu eldar síðasta árs voru að mestu leyti ekki skógareldar.

Embættismenn í Kaliforníu hafa sakað forsetann um að láta neyðarástand snúa um stjórnmál og segja hann ekki skilja hvað felist í því að berjast gegn skógar- og kjarreldum.

Trump heimsótti Kaliforníu í nóvember og þá sérstaklega bæinn Paradise, sem brann nánast allur til kaldra kola. Eftir þá heimsókn hét hann því að ríkið myndi styðja þá sem misstu allt sitt í eldunum en í senn gagnrýndi hann Kaliforníu fyrir að sjá ekki nægilega vel um skóga ríkisins.

Hann sagði jafnvel að forseti Finnlands hefði eitt sinn sagt honum að skógareldar væru fátíðir þar í landi þar sem Finnar rökuðu skógana sína. Forseti Finnlands kannaðist þó ekki við þá frásögn og Finnar gerðu óspart grín að Trump vegna ummælanna.

Sjá einnig: Forseti Finnlands furðar sig á ummælum Trump um rakstur skóga



Gavin Newsom, nýr ríkisstjóri Kaliforníu, hefur gagnrýnt tíst Trump. Á fyrstu tveimur dögum sínum í starfi hafði hann skipað fyrir um aukin viðbúnað gegn skógar- og kjarreldum. Þá tilkynnti hann samstarf Kaliforníu, Oregon og Washington gegn eldum en þeir eru tíðir í öllum ríkjunum þremur.

Ríkisstjórar ríkjanna kölluðu eftir því að ríkisstjórn Trump legði meira fé til hliðar vegna skógar- og kjarrelda en þar hefur þó nokkuð verið skorið niður á undanförnum tveimur árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×