Aukin áhersla á framtaksfjárfestingar Kristinn Ingi Jónsson skrifar 9. janúar 2019 09:00 Paul Singer stofnaði Elliott Management fyrir 42 árum. Hann er enn í dag stjórnarformaður og forstjóri vogunarsjóðsins. Nordicphotos/Getty Það var bandaríska vogunarsjóðnum Elliott Management mikið áfall að lúta í lægra haldi í baráttunni um yfirráð yfir upplýsingatæknifyrirtækinu Riverbed Technology undir lok árs 2014. Ósigurinn, en vogunarsjóðurinn átti lægra tilboð en fjárfestahópur undir forystu framtakssjóðsins Thoma Bravo, hratt af stað áherslubreytingu í starfsemi Elliotts sem hefur á undanförnum misserum einbeitt sér í síauknum mæli að framtaksfjárfestingum í óskráðum fyrirtækjum (e. private equity). Elliott, sem er þekktari fyrir að kaupa minnihluta í fyrirtækjum og kalla eftir breytingum í rekstri þeirra en að hafa full yfirráð yfir fyrirtækjum, kom fjárfestum, greinendum og ekki síst stjórnendum Riverbeds í opna skjöldu þegar hann gerði yfirtökutilboð í tæknifyrirtækið í byrjun árs 2014. Margir töldu að vogunarsjóðurinn hefði takmarkaðan áhuga á því að eignast Riverbed, enda væri það ólíkt sjóðnum að reyna að taka fyrirtæki yfir, heldur væri markmið hans með tilboðinu eingöngu að þrýsta hlutabréfaverðinu upp og fá fleiri fjárfesta að borðinu. Jesse Cohn, sjóðsstjóri hjá Elliott Management, hrósaði opinberlega happi yfir kaupum fjárfestahóps Thomas Bravo á Riverbed. Sem einn af stærstu hluthöfum tæknifyrirtækisins, með ríflega tíu prósenta hlut, græddi vogunarsjóðurinn enda fúlgur fjár á yfirtökunni. Í fréttaskýringu Financial Times kemur fram að sjóðurinn hafi keypt sig inn í fyrirtækið á genginu 15,11 dalir á hlut en selt hlut sinn á 39 prósenta hærra verði. Í reynd var Cohn hins vegar afar ósáttur með málalyktir, að sögn viðmælenda Financial Times sem þekkja vel til mála. Kaupendurnir höfðu hafnað boði Elliotts, sem vildi slást í hóp með þeim, en engu að síður gripu þeir í kjölfar kaupanna til sömu aðgerða til þess að umbreyta rekstri Riverbeds og vogunarsjóðurinn hafði ítrekað talað fyrir. Fjárfestahópurinn átti á næstu árum eftir að margfalda fjárfestingu sína, Cohn til mikillar gremju. „Á þessari stundu rann það upp fyrir Elliott,“ segir einn heimildarmaður Financial Times, að sjóðurinn þyrfti að marka sína eigin stefnu í framtaksfjárfestingum.Stofnuðu framtakssjóð Og starfsmenn sjóðsins tvínónuðu ekki við hlutina. Þeir settu fljótlega á stofn framtakssjóðinn Evergreen Coast Capital Partners, sem átti einkum að fjárfesta í bandarískum hugbúnaðar- og tæknifyrirtækjum, og tryggðu honum nægt fjármagn til þess að geta keppt við marga af helstu framtakssjóðum Bandaríkjanna. Áherslubreytingin hefur á undanförnum mánuðum borið ríkulegan ávöxt. Elliott keypti meðal annars hugbúnaðarfyrirtækið Gigamon fyrir 1,6 milljarða dala síðla árs 2017 og heilbrigðistæknifyrirtækið Athenahealth fyrir 5,7 milljarða dala í nóvember síðastliðnum. Í síðasta mánuði var jafnframt tilkynnt um kaup vogunarsjóðsins, ásamt fjárfestingafélaginu Siris Capital, á ferðatæknifyrirtækinu Travelport. Var kaupverðið um 4,4 milljarðar dala. „Sjóðurinn hefur hagnast verulega á því að koma fyrirtækjum í hendur framtakssjóða,“ segir einn ráðgjafi Elliotts í samtali við Financial Times. Hann hafi hins vegar misst af enn stærri hagnaðartækifærum með því að selja sig út úr fyrirtækjunum. „Nýja stefnan er góð vegna þess að hún gerir sjóðinn að enn áhrifameiri fjárfesti. Lítil hætta á innlausnum Elliott, sem milljarðamæringurinn Paul Singer stofnaði árið 1977, er einn stærsti aðgerðasinnaði (e. activist) vogunarsjóður heims. Sjóðsstjórar hans fylgja fjárfestingum sínum eftir af harðfylgi og forðast ekki átök ef þeirra er þörf, eins og sýndi sig í áratugabaráttu sjóðsins við argentínsk stjórnvöld um gjaldfallin skuldabréf Argentínu. Sjóðurinn gekk meira að segja svo langt í þeim deilum að hann lét kyrrsetja argentínskt seglskip þegar það leitaði hafnar í Gana. Aðgerðafjárfestar, líkt og Elliott, einbeita sér vanalega að því að kaupa minnihluta í fyrirtækjum og kalla eftir verulegum breytingum í rekstri þeirra, svo sem uppstokkun á stjórnendateymi, auknum arðgreiðslum eða sölu eigna, í stað þess að taka heilu fyrirtækin yfir. Ein ástæðan er sú að vogunarsjóðir búa ekki yfir eins þolinmóðu fjármagni og framtakssjóðir til þess að ráðast í stórar og tímafrekar fjárfestingar, líkt og til dæmis yfirtökur á fyrirtækjum. Fjárfestar í fyrrnefndu sjóðunum geta reglulega tekið fé sitt út úr sjóðunum á meðan framtakssjóðir eru fjármagnaðir til lengri tíma, oft meira en tíu ára, eins og fréttaskýrandi Reuters bendir á. Viðmælendur Financial Times nefna þó að litlar líkur séu á því að Elliott þurfi að draga úr framtaksfjárfestingum sínum vegna mögulegra innlausna fjárfesta. Annars vegar sé aðeins lítill hluti af 35 milljarða dala eignasafni sjóðsins bundinn í slíkum fjárfestingum og hins vegar sé innflæði fjármagns í sjóðinn margfalt meira en útflæðið úr honum. Sem dæmi safnaði sjóðurinn fjárfestaloforðum fyrir um fimm milljarða dala á aðeins einum sólarhring í síðustu fjármögnunarlotu um mitt ár 2017. Keypti breska bókakeðju Það er ekki aðeins í Bandaríkjunum sem Elliott hefur lagt aukna áherslu á framtaksfjárfestingar. Sjóðurinn fékk sumarið 2017 Paul Best, fyrrverandi framkvæmdastjóra Warburg Pincus, til þess að stýra fjárfestingum sínum í óskráðum evrópskum fyrirtækjum. Hans fyrsta verk var að kaupa ráðandi hlut í bresku bókaverslanakeðjunni Waterstones. Og sjóðurinn hefur látið til sín taka á fleiri vígstöðvum í Evrópu. Upplýst hefur verið um kaup hans á hlut í meðal annars þýska lyfja- og efnarisanum Bayer, franska drykkjarvöruframleiðandanum Pernod Ricard og þýska stálfyrirtækinu ThyssenKrupp. Þá vakti það mikla athygli þegar vogunarsjóðurinn tók yfir AC Milan síðasta sumar eftir að kínverskur eigandi ítalska knattspyrnufélagsins stóð ekki í skilum við sjóðinn. Stjórnendur Elliotts hafa heitið því að að skjóta styrkari stoðum undir fjárhag AC Milan og koma því aftur í fremstu röð á meðal evrópskra knattspyrnuliða. Þegar því takmarki er náð, mögulega á næstu tólf til átján mánuðum, hyggst vogunarsjóðurinn selja félagið. Í Bandaríkjunum hefur sjóðurinn fyrst og fremst reynt yfirtökur á hugbúnaðar- og tæknifyrirtækjum, eins og áður sagði. Það kann hins vegar að horfa til breytinga. Samkvæmt heimildum Financial Times skoðar teymi áðurnefnds Jesse Cohns nú mögulegar fjárfestingar í olíu- og gasgeiranum. Þá íhugar sjóðurinn jafnframt, ásamt framtakssjóðnum Apollo, að yfirtaka framleiðslufyrirtækið Arconic sem var áður hluti af álrisanum Alcoa. Birtist í Fréttablaðinu Mest lesið „Þá hugsuðu menn: Fínt, fáum konurnar í þessi störf“ Atvinnulíf Hærri barnabætur og ný gjöld á nikótínvörur á nýju ári Viðskipti innlent Gjafabréf og alls konar flatbökudótarí vinsælar jólagjafir í ár Viðskipti innlent Innkalla nagstangir sem hundar veikjast af Viðskipti innlent „Ásta mín, ef þú segir nei við þessu tilboði þá rek ég þig“ Atvinnulíf Nýskráning fólksbíla dróst saman um rúm fjörutíu prósent Viðskipti innlent Sektuð fyrir að auglýsa lénið á auglýsingaskilti Neytendur Gervigreindin sögð „bjargvættur“ jarðgassiðnaðarins Viðskipti erlent Grýlan sem segir vekjaranum að grjóthalda kjafti Atvinnulíf Kilroy hafi veitt ferðamönnum rangar upplýsingar Neytendur Fleiri fréttir Sjónvarpskóngur allur Gervigreindin sögð „bjargvættur“ jarðgassiðnaðarins Bölvað basl á Bond Halda áfram bitcoin-braski þrátt fyrir samkomulag við AGS Draga úr rafmyntarvæðingu til að fá lán frá AGS TikTok fær síðasta séns fyrir Hæstarétti Ræða samruna Honda og Nissan Bitcoin nær nýjum hæðum vegna Trumps Enn þynnri og samanbrjótanlegur iPhone Vesen á Messenger, Facebook og Instagram Verð á kaffi sögulega hátt Loka á aðgengi Bandaríkjamanna að mikilvægum málmum Dómari fellir aftur úr gildi 56 milljarða dala launapakka Musk Danska ríkið kaupir Kastrup Sjá meira
Það var bandaríska vogunarsjóðnum Elliott Management mikið áfall að lúta í lægra haldi í baráttunni um yfirráð yfir upplýsingatæknifyrirtækinu Riverbed Technology undir lok árs 2014. Ósigurinn, en vogunarsjóðurinn átti lægra tilboð en fjárfestahópur undir forystu framtakssjóðsins Thoma Bravo, hratt af stað áherslubreytingu í starfsemi Elliotts sem hefur á undanförnum misserum einbeitt sér í síauknum mæli að framtaksfjárfestingum í óskráðum fyrirtækjum (e. private equity). Elliott, sem er þekktari fyrir að kaupa minnihluta í fyrirtækjum og kalla eftir breytingum í rekstri þeirra en að hafa full yfirráð yfir fyrirtækjum, kom fjárfestum, greinendum og ekki síst stjórnendum Riverbeds í opna skjöldu þegar hann gerði yfirtökutilboð í tæknifyrirtækið í byrjun árs 2014. Margir töldu að vogunarsjóðurinn hefði takmarkaðan áhuga á því að eignast Riverbed, enda væri það ólíkt sjóðnum að reyna að taka fyrirtæki yfir, heldur væri markmið hans með tilboðinu eingöngu að þrýsta hlutabréfaverðinu upp og fá fleiri fjárfesta að borðinu. Jesse Cohn, sjóðsstjóri hjá Elliott Management, hrósaði opinberlega happi yfir kaupum fjárfestahóps Thomas Bravo á Riverbed. Sem einn af stærstu hluthöfum tæknifyrirtækisins, með ríflega tíu prósenta hlut, græddi vogunarsjóðurinn enda fúlgur fjár á yfirtökunni. Í fréttaskýringu Financial Times kemur fram að sjóðurinn hafi keypt sig inn í fyrirtækið á genginu 15,11 dalir á hlut en selt hlut sinn á 39 prósenta hærra verði. Í reynd var Cohn hins vegar afar ósáttur með málalyktir, að sögn viðmælenda Financial Times sem þekkja vel til mála. Kaupendurnir höfðu hafnað boði Elliotts, sem vildi slást í hóp með þeim, en engu að síður gripu þeir í kjölfar kaupanna til sömu aðgerða til þess að umbreyta rekstri Riverbeds og vogunarsjóðurinn hafði ítrekað talað fyrir. Fjárfestahópurinn átti á næstu árum eftir að margfalda fjárfestingu sína, Cohn til mikillar gremju. „Á þessari stundu rann það upp fyrir Elliott,“ segir einn heimildarmaður Financial Times, að sjóðurinn þyrfti að marka sína eigin stefnu í framtaksfjárfestingum.Stofnuðu framtakssjóð Og starfsmenn sjóðsins tvínónuðu ekki við hlutina. Þeir settu fljótlega á stofn framtakssjóðinn Evergreen Coast Capital Partners, sem átti einkum að fjárfesta í bandarískum hugbúnaðar- og tæknifyrirtækjum, og tryggðu honum nægt fjármagn til þess að geta keppt við marga af helstu framtakssjóðum Bandaríkjanna. Áherslubreytingin hefur á undanförnum mánuðum borið ríkulegan ávöxt. Elliott keypti meðal annars hugbúnaðarfyrirtækið Gigamon fyrir 1,6 milljarða dala síðla árs 2017 og heilbrigðistæknifyrirtækið Athenahealth fyrir 5,7 milljarða dala í nóvember síðastliðnum. Í síðasta mánuði var jafnframt tilkynnt um kaup vogunarsjóðsins, ásamt fjárfestingafélaginu Siris Capital, á ferðatæknifyrirtækinu Travelport. Var kaupverðið um 4,4 milljarðar dala. „Sjóðurinn hefur hagnast verulega á því að koma fyrirtækjum í hendur framtakssjóða,“ segir einn ráðgjafi Elliotts í samtali við Financial Times. Hann hafi hins vegar misst af enn stærri hagnaðartækifærum með því að selja sig út úr fyrirtækjunum. „Nýja stefnan er góð vegna þess að hún gerir sjóðinn að enn áhrifameiri fjárfesti. Lítil hætta á innlausnum Elliott, sem milljarðamæringurinn Paul Singer stofnaði árið 1977, er einn stærsti aðgerðasinnaði (e. activist) vogunarsjóður heims. Sjóðsstjórar hans fylgja fjárfestingum sínum eftir af harðfylgi og forðast ekki átök ef þeirra er þörf, eins og sýndi sig í áratugabaráttu sjóðsins við argentínsk stjórnvöld um gjaldfallin skuldabréf Argentínu. Sjóðurinn gekk meira að segja svo langt í þeim deilum að hann lét kyrrsetja argentínskt seglskip þegar það leitaði hafnar í Gana. Aðgerðafjárfestar, líkt og Elliott, einbeita sér vanalega að því að kaupa minnihluta í fyrirtækjum og kalla eftir verulegum breytingum í rekstri þeirra, svo sem uppstokkun á stjórnendateymi, auknum arðgreiðslum eða sölu eigna, í stað þess að taka heilu fyrirtækin yfir. Ein ástæðan er sú að vogunarsjóðir búa ekki yfir eins þolinmóðu fjármagni og framtakssjóðir til þess að ráðast í stórar og tímafrekar fjárfestingar, líkt og til dæmis yfirtökur á fyrirtækjum. Fjárfestar í fyrrnefndu sjóðunum geta reglulega tekið fé sitt út úr sjóðunum á meðan framtakssjóðir eru fjármagnaðir til lengri tíma, oft meira en tíu ára, eins og fréttaskýrandi Reuters bendir á. Viðmælendur Financial Times nefna þó að litlar líkur séu á því að Elliott þurfi að draga úr framtaksfjárfestingum sínum vegna mögulegra innlausna fjárfesta. Annars vegar sé aðeins lítill hluti af 35 milljarða dala eignasafni sjóðsins bundinn í slíkum fjárfestingum og hins vegar sé innflæði fjármagns í sjóðinn margfalt meira en útflæðið úr honum. Sem dæmi safnaði sjóðurinn fjárfestaloforðum fyrir um fimm milljarða dala á aðeins einum sólarhring í síðustu fjármögnunarlotu um mitt ár 2017. Keypti breska bókakeðju Það er ekki aðeins í Bandaríkjunum sem Elliott hefur lagt aukna áherslu á framtaksfjárfestingar. Sjóðurinn fékk sumarið 2017 Paul Best, fyrrverandi framkvæmdastjóra Warburg Pincus, til þess að stýra fjárfestingum sínum í óskráðum evrópskum fyrirtækjum. Hans fyrsta verk var að kaupa ráðandi hlut í bresku bókaverslanakeðjunni Waterstones. Og sjóðurinn hefur látið til sín taka á fleiri vígstöðvum í Evrópu. Upplýst hefur verið um kaup hans á hlut í meðal annars þýska lyfja- og efnarisanum Bayer, franska drykkjarvöruframleiðandanum Pernod Ricard og þýska stálfyrirtækinu ThyssenKrupp. Þá vakti það mikla athygli þegar vogunarsjóðurinn tók yfir AC Milan síðasta sumar eftir að kínverskur eigandi ítalska knattspyrnufélagsins stóð ekki í skilum við sjóðinn. Stjórnendur Elliotts hafa heitið því að að skjóta styrkari stoðum undir fjárhag AC Milan og koma því aftur í fremstu röð á meðal evrópskra knattspyrnuliða. Þegar því takmarki er náð, mögulega á næstu tólf til átján mánuðum, hyggst vogunarsjóðurinn selja félagið. Í Bandaríkjunum hefur sjóðurinn fyrst og fremst reynt yfirtökur á hugbúnaðar- og tæknifyrirtækjum, eins og áður sagði. Það kann hins vegar að horfa til breytinga. Samkvæmt heimildum Financial Times skoðar teymi áðurnefnds Jesse Cohns nú mögulegar fjárfestingar í olíu- og gasgeiranum. Þá íhugar sjóðurinn jafnframt, ásamt framtakssjóðnum Apollo, að yfirtaka framleiðslufyrirtækið Arconic sem var áður hluti af álrisanum Alcoa.
Birtist í Fréttablaðinu Mest lesið „Þá hugsuðu menn: Fínt, fáum konurnar í þessi störf“ Atvinnulíf Hærri barnabætur og ný gjöld á nikótínvörur á nýju ári Viðskipti innlent Gjafabréf og alls konar flatbökudótarí vinsælar jólagjafir í ár Viðskipti innlent Innkalla nagstangir sem hundar veikjast af Viðskipti innlent „Ásta mín, ef þú segir nei við þessu tilboði þá rek ég þig“ Atvinnulíf Nýskráning fólksbíla dróst saman um rúm fjörutíu prósent Viðskipti innlent Sektuð fyrir að auglýsa lénið á auglýsingaskilti Neytendur Gervigreindin sögð „bjargvættur“ jarðgassiðnaðarins Viðskipti erlent Grýlan sem segir vekjaranum að grjóthalda kjafti Atvinnulíf Kilroy hafi veitt ferðamönnum rangar upplýsingar Neytendur Fleiri fréttir Sjónvarpskóngur allur Gervigreindin sögð „bjargvættur“ jarðgassiðnaðarins Bölvað basl á Bond Halda áfram bitcoin-braski þrátt fyrir samkomulag við AGS Draga úr rafmyntarvæðingu til að fá lán frá AGS TikTok fær síðasta séns fyrir Hæstarétti Ræða samruna Honda og Nissan Bitcoin nær nýjum hæðum vegna Trumps Enn þynnri og samanbrjótanlegur iPhone Vesen á Messenger, Facebook og Instagram Verð á kaffi sögulega hátt Loka á aðgengi Bandaríkjamanna að mikilvægum málmum Dómari fellir aftur úr gildi 56 milljarða dala launapakka Musk Danska ríkið kaupir Kastrup Sjá meira