Innlent

Segir átök á vinnumarkaði geta haft áhrif á ferðaþjónustuna

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Flosi Eiríksson og Jóhannes Þór Skúlason voru gestir í Sprengisandi í morgun.
Flosi Eiríksson og Jóhannes Þór Skúlason voru gestir í Sprengisandi í morgun. Vísir
Framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins segir kjaraviðræður fara vel af stað þrátt fyrir að öll stóru málin séu óleyst. Hann segir ótímabært að boða til átaka í deilum en framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir að slík átök geti skaðað ferðaþjónustuna.

Flosi Eiríksson, framkvæmastjóri Starfsgreinasambandsins og Jóhannes Þór Skúlason framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar voru gestir Kristjáns Kristjánssonar í Sprengisandi í morgun. Þar ræddu þeir kjaramálin en Starfsgreinasambandið fundaði um helgina með Samtökum atvinnulífsins. Flosi segir viðræður fara vel af stað þó enn sé langt í land.

„Það er langt í land og út af stendur stóri liðurinn sem snýr að launum og stóra samhengið sem er afkoma ríkisvaldsins,“ sagði Flosi Eiríksson, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins.

Hann segir sambandið horfa sérstaklega til skattamála og styttingu vinnuvikunnar.

Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir að ef komi til átaka á vinnumarkaði geti þau haft skaðleg áhrif á ferðaþjónustuna.

„Ef við erum með átök á vinnumarkaði, sérstaklega sem hafa áhrif á samgöngur, þá gata þau haft mikil áhrif á bókanir ferðamanna og þar með á afkomu fyrirtækjanna,“ sagði Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka Ferðaþjónustunnar.

„Það er allt of snemmt að segja til um það hvort við séum að sigla inn í átök en ég skynja það á mínum félögum að menn taka því mjög alvarlega að verkföll eru ekkert grín. En ef að menn telja sig ekki fá eðlilegan framganng í þessum viðræðum þá eiga þeir engan annan kost,“ sagði Flosi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×