Erlent

Pórósjenkó: Úkraína sæki um aðild að ESB árið 2024

Atli Ísleifsson skrifar
Petró Pórósjenkó hefur gegnt embætti forseta Úkraínu frá árinu 2014.
Petró Pórósjenkó hefur gegnt embætti forseta Úkraínu frá árinu 2014. AP/Efrem Lukatsky
Petró Pórósjenkó, forseti Úkraínu, tilkynnti í morgun að hann sækist eftir endurkjöri en forsetakosningar fara fram í landinu þann 31. mars.

Forsetinn sagðist stefna að því að Úkraína muni sækja um aðild að ESB árið 2024, fari svo að hann verði endurkjörinn.

Pórósjenkó tilkynnti um framboð sitt fyrir framan þúsundir stuðningsmanna í Kænugarði fyrr í dag. Súkkulaðimógúllinn Pórósjenkó tók við embætti forseta Úkraínu í kjölfar byltingarinnar 2014 þar sem Viktor Janúkóvitsj var hrakinn frá völdum.

Lengi hefur legið fyrir að stjórnvöld í Úkraínu og Georgíu stefni að því að gerast aðilar að Evrópusambandinu. Þegar kemur að Úkraínu hafa fulltrúar ESB hins vegar sagt slíkt vera útilokað, verði ekki tekið betur á þeirri gríðarlegu spillingu sem ríkir í landinu. Pórósjenkó hefur sagt að sérstakur spillingardómstóll muni taka til starfa í landinu á næsta ári.

Dvínandi vinsældir

Nokkuð hefur dregið úr vinsældum Pórósjenkó meðal úkraínsku þjóðarinnar að undanförnu, meðal annars vegna tíðra spillingarmála og þar sem illa hefur gengið að binda enda á deiluna í austurhluta landsins þar sem aðskilnaðarsinnar hafa lýst yfir sjálfstæði. Alls hafa um 10 þúsund manns látið lífið í átökum þar síðustu árin.

Júlía Tímósjenkó, fyrrverandi forsætisráðherra Úkraínu, hefur þegar tilkynnt um framboð sitt til forseta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×