Fyrirtækið, sem metið var á 2,5 milljarða bandaríkjadala í fyrra, 300 milljarða íslenskra króna, býður viðskiptavinum sínum upp á margvíslegar greiðsludreifingarleiðir hjá rúmlega 100 þúsund smásöluverslunum í vesturheimi.
Auk þess að verða hluthafi í Klarna mun tónlistarmaðurinn jafnframt verða andlit nýjustu auglýsingaherferðar fyrirtækisins. Í auglýsingunum gengur hann þó undir öðru nafni, Smoooth Dog, sem er í samræmi við stefnu Klarna um þægilega greiðsludreifingu.
„Þannig að við veltum fyrir okkur hver væri þægilegasti núlifandi einstaklingurinn og það er í raun sagan á bakvið það að Snoop Dogg kom inn í myndina. Þegar við byrjuðum að spjalla við Snoop Dogg þá var hann mjög áhugasamur um tæknibransann, fjártækni, allan pakkann, þannig að við náðum mjög vel saman,“ segir forstjórinn.
Sjálfur segist hinn silkilmjúki Snoop vera á höttunum eftir fleiri fjárfestingartækifærum. Hann hefur látið til sín taka á síðustu árum, til að mynda fjárfesti hann í samfélagsmiðlinum Reddit, markaðstorginu Robinhood og marijúanaheimsendingaþjónustunni Eaze.
„Ég hef lært mikið um heim viðskiptanna á síðustu árum. Ég þarf að fara mér hægt og kanna málin til hlítar. Það er mikilvægt að mér líki vel við stofnendurna og að ég hafi trú á því að þeir geti stýrt fyrirtækjunum,“ segir Dogg sem vonast til að geta aðstoðað Klarna við ímyndarvinnu og staðfærslu vörumerkisins.