Tökuliðið mætti í Stykkishólm í byrjun vikunnar og sást til Lenu Endre á veitingastaðnum Narfeyrarstofu þar sem reikna má með að verði gestkvæmt næstu daga. Greint var frá því á vef RÚV í nóvember að serían væri skrifuð af Jónasi Margeiri Ingólfssyni, Jóhanni Ævari Grímssyni og Birki Blæ Ingólfssyni.
Fjölmörg farartæki
Samkvæmt heimildum Vísis gerist serían á Grænlandi þar sem fundur stendur yfir sem tengist loftslagsmálum og málefnum norðurslóða. Fóru handritshöfundar til Grænlands í fyrravetur og sagði Jónas Margeir í viðtali við RÚV að stuðst væri við sögur og atvik frá heimsókn þeirra þangað.Stykkishólmur virðist hafa verið valinn þar sem bærinn svipar á ýmsan hátt til bæja á Grænlandi. Er reiknað með því að tökur standi yfir að minnsta kosti til 13. mars.
„Það er okkur mikið í mun að vinna í góðu samstarfi við ykkur kæru íbúar og er það okkur ofarlega í huga að þið verðið ekki fyrir óþægindum vegna starfs okkar. Okkur fylgja mikið af farartækjum ásamt nokkrir af stærri gerðinni og þó nokkuð umstang en við munum reyna að lágmarka umgang og truflun eins og mögulegt er,“ segir tökustjórinn Bergsveinn Jónsson á vef Stykkishólmsbæjar.
Þekkt úr þríleik
„Við komum til með að tilkynna ykkur reglulega í hvaða götum við komum til með að vera að vinna í með stuttum fyrirvara, og mun sú tilkynning birtast á vefsíðu og samfélagsmiðlum Stykkishólmsbæjar. Ef eitthvað kemur upp á eða þið verðið fyrir ónæði eða óþægindum af okkar völdum biðjum við ykkur um að hika ekki við að hafa samband og munum við bregðast við eins fljótt og auðið er.“Lena Endre, sem fagnar 64 ára afmæli í sumar, er aðdáendum kvikmynda eftir bókum Stieg Larsson að góðu kunn. Þar leikur hún Eriku Berger í myndunum Karlar sem hata konur, Stúlkan sem lék sér að eldinum og Loftkastalinn sem hrundi.
Þá lék hún sömuleiðis í sjónvarpsþáttunum Wallander, í annarri þáttaröð, og í The Master, kvikmynd Paul Thomas Anderson, með Joaquin Phoenix, Phillip Seymour Hoffman, Amy Adams og Lauru Dern.