Er þeim veitt heimild til að afla gagna sem málið kann að varða og krefjast opinberrar rannsóknar á hugsanlega refsiverðu athæfi Manna í vinnu og kæra ef til þess kemur. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Eflingu þar sem vísað er í fréttir Stöðvar 2 að kvöldi 7. febrúar síðastliðinn.

Fulltrúar Eflingar og ASÍ skoðuðu aðbúnað mannanna og virkjuðu í kjölfarið framkvæmdateymi fyrir þolendur mansals. Starfsmenn kjaramálasviðs Eflingar hafa fundað með verkamönnunum og aflað frekari gagna um málið. Vegna gruns um umfangsmikið refsivert athæfi og hugsanlegt mansal var málið fært í hendur lögmannastofunnar Réttar.
„Efling hefur lengi beitt sér gegn ítrekuðum brotum á kjarasamningum, sem framin eru í skjóli óljósra samninga, „útleigu“ á starfsfólki og skorts á sektarheimildum. Í Kröfugerð Eflingar, sem samin var af félagsmönnum í haust er þess meðal annars krafist að heimilt sé að innheima sektir vegna alvarlegra brota á kjarasamningi.“

„Kjaramálasviði og lögmönnum Eflingar hefur tekist að reka launakröfur með góðum árangri gegn starfsmannaleigum. En það sem við sjáum núna eru nýstárlegar aðferðir, hjá sömu aðilum, við að féfletta fólk framhjá lögum og reglum. Það kallar á að við beitum fyrir okkur nýjum lagalegum vopnum og samstarf okkar við Rétt er dæmi um það. Við erum mjög ánægð að Ragnar Aðalsteinsson og Réttur hafi fallist á að taka málið upp á sína arma.“
Greint var frá því á Vísi í gærkvöldi að Viðari hefði borist krafa frá Mönnum í vinnu um afsökunarbeiðni og greiðslu einnar milljónar vegna ummæla sem hann hafi látið falla í fjölmiðlum. Drífa Snædal, forseti ASÍ, greinir frá því að hún hafi sömuleiðis fengið slíkt kröfubréf.