Þetta kemur fram í The Washington Post sem vísar í stefnuyfirlýsingu hryðjuverkamannsins en Viljinn skrifaði um þetta fyrstur innlendra miðla. Tarrant sendi forsætisráðherra Nýja-Sjálands téða stefnuyfirlýsingu í tölvupósti skömmu áður en hann lét til skarar skríða.
Tarrant myrti fimmtíu manns og særði aðra fimmtíu sem sóttu bænastarf í tveimur moskum í borginni Christchurch í Nýja-Sjálandi á föstudag. Hann var leiddur fyrir dómara að morgni laugardags að staðartíma og var ákærður fyrir morðin.
Tarrant ferðaðist víða um heim undanfarin ár en hann segir sjálfur í stefnuyfirlýsingu sinni að Evrópuferðalagið árið 2017 hefði haft djúpstæð áhrif á hann.
Lögregluyfirvöld vinna nú hörðum höndum að því að kortleggja ferðir Tarrants. Þau reyna að hafa uppi á fólki sem hann gæti hafa hitt á ferðalögum sínum. Hann ferðaðist víða um heim í aðdraganda hryðjuverkanna og meðal annars til landa á borð við Norður-Kóreu, Tyrkland, Pakistan, Norðurlandanna og landa í Vestur-Evrópu.
Í stefnuyfirlýsingunni, sem er 74 blaðsíðna skjal sem einkennist af hatursorðræðu í garð innflytjenda og múslima, lýsir hann meðal annars yfir aðdáun sinni á Anders Behring Breivik, norska hryðjuverkamanninum sem tók 77 manns af lífi í Útey og Osló árið 2011.
Hann segist hafa fylgst náið með forsetakosningunum í Frakklandi árið 2017 og hafa orðið reiður yfir innflytjendastefnu Frakka.

Fjölskylda hryðjuverkamannsins í áfalli
Marie Fitzgerald, amma Tarrants, segir að heimshornaflakkið hefði breytt honum. Tarrant hefði ekki verið sami maður þegar hann kom til baka og hún þekki áður.Fitzgerald segist vera í algjöru áfalli yfir því að einhver í fjölskyldunni hennar hefði getað framið slíkt illvirki. Þetta sé einfaldlega of mikið til að hún geti meðtekið þetta.
Amma Tarrants segir að fráfall föður hans hefði fengið mjög á hann en faðir hans lést úr krabbameini árið 2010.
Fjölskylda Tarrants hafði ekki hugmynd um hann hefði þessar myrku fyrirætlanir og segir fjölskylduna alla vera í miklu áfalli.
Systir og móðir Tarrants dveljast nú í húsnæði undir lögregluvernd.