Símstöðin tók til starfa árið 1950 og þjónaði bæði sem pósthús og símstöð en einnig sem loftskeytastöðin Brúarradíó. Þar var jafnframt fastur viðkomustaður áætlunarbíla, bæði Norðurleiðar og Strandarútunnar.
Húsið liggur núna undir skemmdum en það er í eigu N1, sem notaði það síðast sem gististað fyrir starfsmenn Staðarskála. Símstöðin má muna sinn fífil fegurri en segja má að hún hafi verið nafli alheimsins í Hrútafirði á sínum tíma.

Frá húsinu blasir við gamall tréstokkur í hlíðinni. Hann liggur upp að stíflu og inntakslóni í heiðinni. Vatnið þaðan nýttist símstöðinni bæði sem neysluvatn og til raforkuframleiðslu.
Já, þetta hús hafði sína eigin virkjun og hún var hluti af byggingunni. Hún sá bæði símstöðinni og veitingaskálanum í Brú fyrir rafmagni.
Í kjallaranum má enn sjá gömlu túrbínuna, sem virkar það heilleg að við veltum því fyrir okkur hvort ekki mætti hleypa vatninu á og hefja raforkuframleiðslu á ný.

Húsið var tólf til fjórtán manna vinnustaður. Þrjár fjölskyldur bjuggu í húsinu að staðaldri, hver hafði sína íbúð, einnig var gistirými fyrir símastarfsmenn sem fóru um landið. Þetta var eins og lítið hótel með fjölda gistiherbergja og matsal. Starfsemi símans lauk árið 1976 en pósthús var áfram rekið í húsinu í nokkur ár.
Áhugamannahópur undir forystu Þóris Steingrímssonar leitar nú leiða til að finna húsinu nýtt hlutverk í von um að forða því frá frekari skemmdum og jafnvel niðurrifi. Meðal annars hefur verið viðruð sú hugmynd að reka þar farfuglaheimili, að sögn Þóris. Vandinn er hins vegar sá það gæti kostað talsverða fjármuni að gera það nothæft á ný.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: