„Uppsagnirnar voru í síðustu viku. Það er ekki þannig að starfsfólkið í Kringlunni sé að missa vinnuna heldur var þeim boðin vinna annars staðar. Í kjölfarið eru gerðar breytingar á söluteyminu og þessir fimm missa þá vinnuna,“ segir Guðmundur.
Inntur eftir því hvort uppsagnirnar tengist gjaldþroti WOW air, líkt og almennt hefur verið í uppsagnahrinunni sem nú virðist ganga yfir, segir Guðmundur svo ekki vera.
„Nei alls ekki. Þetta er talsvert lengri aðdragandi. Það hefur verið þannig að samskiptafyrirtæki finna almennt fyrir því seinna heldur en margir aðrir þegar verður samdráttur í þjóðfélaginu, samkvæmt eðli þjónustunnar sem við veitum.“
Versla frekar á netinu en að gera sér ferð í verslunina
Alls starfa um 500 manns hjá Símanum en Guðmundur segist ekki eiga von á því að fleiri starfsmönnum verði sagt upp hjá fyrirtækinu.„Nei, það er ekkert slíkt í kortunum. Þetta tengist bara akkúrat þessum breytingum og engu öðru.“
Eins og áður segir verður verslun Símans í Kringlunni lokað á sunnudag. Í kjölfarið verður opnunartími Símaverslunarinnar í Ármúla rýmkaður og þá verður engin breyting á rekstri verslana fyritækisins í Smáralind og á Akureyri. Guðmundur segir að lokunina megi rekja til breytinga í neyslumynstri viðskiptavina.
„Heimsóknum hefur fækkað í verslunina þrátt fyrir að viðskiptavinum hafi fjölgað. Fólk er meira að þjónusta sig sjálft á netinu, í snjallsímanum og versla í vefversluninni.“