Lakers landaði LeBron James í sumar og um jólin var liðið í 4. sæti Vesturdeildarinnar. Eftir að LeBron meiddist fór að halla undan fæti og gengið eftir áramót hefur verið slakt.
LeBron skoraði 22 stig í leiknum í nótt, tók níu fráköst og gaf 14 stoðsendingar. JaVale McGee skoraði 33 stig og tók 20 fráköst hjá Lakers. Joe Harris var stigahæstur í liði Brooklyn með 26 stig.
James Harden skoraði 61 stig þegar Houston Rockets bar sigurorð af San Antonio Spurs, 111-105. Harden hitti úr níu af 13 þriggja stiga skotum sínum í leiknum og gerði varnarmönnum San Antonio lífið leitt. Houston er í 3. sæti Vesturdeildarinnar en San Antonio í því áttunda.
Oklahoma City Thunder komst aftur á sigurbraut þegar liðið vann Toronto Raptors, 109-116, á útivelli. Paul George skoraði 28 stig fyrir Oklahoma sem er í 5. sæti Vesturdeildarinnar. Russell Westbrook var með þrefalda tvennu í liði Oklahoma; 18 stig, tólf fráköst og 13 stoðsendingar.
Úrslitin í nótt:
Orlando 123-119 Memphis
Cleveland 108-110 LA Clippers
NY Knicks 93-111 Denver
Toronto 109-116 Oklahoma
Houston 111-105 San Antonio
Milwaukee 116-87 Miami
LA Lakers 106-111 Brooklyn