Faðir argentínska fótboltamannsins Emilianos Sala er látinn, þremur mánuðum eftir að sonur hans fórst í flugslysi.
Horacio Sala fékk hjartaáfall á heimili sínu á þriðjudaginn. Hann var látinn þegar læknar mættu á svæðið. Hann var 58 ára gamall.
Sala bar son sinn til grafar í febrúar. Hann lést þegar flugvél sem hann var um borð í hrapaði í Ermasund.
Sala var búinn að ganga frá samningi við Cardiff City og var á leið til velska félagsins þegar hann fórst.
Cardiff keypti Sala fyrir metverð frá Nantes. Félögin hafa undanfarið deilt um hvernig greiðslu fyrir Sala eigi að vera háttað.
