Milwaukee vann fjórða leik sinn við Detroit í nótt og vann þar með seríuna 4-0. Giannis Antetokounmpo átti stórleik fyrir Bucks og skoraði 41 stig í 127-104 sigrinum.
Með sigrinum komst Bucks í undanúrslit Austurdeildarinnar í fyrsta skipti í átján ár.
Detroit hafði leitt leikinn lengst af þegar Milwaukee fór á 17-3 áhlaup undir lok þriðja leikhluta og komst tíu stigum yfir fyrir loka fjórðunginn. Þar héldu gestirnir áfram að keyra og unnu öruggan sigur.
Milwaukee mætir Boston Celtics í undanúrslitum Austurdeildarinnar en Detroit fer í sumarfrí.
Í Vesturdeildinni frestaði Utah Jazz sumarfríinu, í það minnsta fram á miðvikudagskvöld, með því að vinna Houston Rockets.
Donovan Mitchell steig upp í fjórða leikhluta og leiddi Utah til 107-91 sigurs en 19 af 31 stigi Mitchell kom í fjórða leikhluta.
Jae Crowder var með 23 stig og Ricky Rubio 18 fyrir Utah.
Heimamenn komust í tveggja stafa forskot strax í fyrsta leikhluta þökk sé frábærri skotnýtingu Crowder og Rubio en þeir hittu samtals úr 9 af 11 skotum og skoruðu 25 stig samanlagt í fyrsta leikhluta.
Houston komst aftur inn í leikinn en Jazz byrjaði fjórða leikhluta á 15-1 áhlaupi og tryggði sigurinn.
Staðan í einvíginu er því 3-1 fyrir Houston, en fjóra sigra þarf til að fara áfram.