Handbolti

Aganefnd HSÍ tekur mál Kára fyrir á ný

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Kári ásamt félaga sínum, Róbert Sigurðarsyni, sem einnig var í banni í síðasta leik. Róbert er löglegur á morgun en spurning hvernig fer hjá Kára.
Kári ásamt félaga sínum, Róbert Sigurðarsyni, sem einnig var í banni í síðasta leik. Róbert er löglegur á morgun en spurning hvernig fer hjá Kára. vísir/hbg
Máli handboltamannsins Kára Kristjáns Kristjánssonar, leikmanns ÍBV, er ekki lokið en aganefnd HSÍ ku ætla að taka mál hans upp á nýjan leik.

Það er fréttavefurinn eyjar.net sem greinir frá því að stjórn HSÍ hafi látið handknattleiksdeild ÍBV vita af því að málið yrði tekið upp á nýjan leik.

Kári Kristján var á dögunum dæmdur í þriggja leikja bann fyrir brot á Haukamanninum Heimi Óla Heimissyni. Alls voru fjórir leikmenn liðanna dæmdir í leikbann eftir leik tvö á milli þeirra í undanúrslitum Olís-deildar karla.

ÍBV er mjög ósátt við bannið og hefur skorað á handknattleikshreyfinguna til þess að taka málið upp að nýju. Eyjamenn hafa nú fengið það í gegn.

ÍBV og Haukar mætast fjórða sinni á morgun í Eyjum en staðan í einvíginu er 2-1 fyrir Hauka sem komast í úrslitaeinvígið gegn Selfossi með sigri á morgun.

Uppfært 16.11:

Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, tjáði Vísi nú síðdegis að hann hefði tekið við yfirlýsingu ÍBV og sent hana til aganefndar. Þannig sé staðan á málinu núna og því ekki víst að aganefnd taki málið til efnislegrar meðferðar.


Tengdar fréttir

Heimir um lýsingar Kára: „Gjörsamlega út í Hróa“

Heimir Óli Heimisson mátti ekki æfa með Haukum í dag eftir að hafa fengið olbogaskot frá Kára Kristjáni Kristjánssyni í höfuðið undir lok leiks ÍBV og Hauka í undanúrslitum Olísdeildar karla. Hann sagði að sér hefði brugðið við að lesa lýsingar Kára Kristjáns af atvikinu.

Kári lét Loga heyra það: „Þvílík andskotans firra“

Kári Kristján Kristjánsson, leikmaður ÍBV í Olísdeild karla, lét Loga Geirsson, einn sérfræðinga Seinni bylgjunnar á Stöð 2 Sport, heyra það á samfélagsmiðlum í dag eftir að Logi sagði brot Kára á Heimi Óla Heimissyni verðskulda margra leikja bann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×