Innlent

Sigraði Hatari Eurovision?

Kolbeinn Tumi Daðason í Tel Aviv skrifar
Hatari á því augnabliki þegar stigin til Íslands voru lesin og fánar Palestínu fóru á loft.
Hatari á því augnabliki þegar stigin til Íslands voru lesin og fánar Palestínu fóru á loft.
Íþróttafréttamenn læra það snemma að maður getur ekki sigrað keppni. Maður getur unnið keppni, sigrað í keppni en aðeins sigrað andstæðinginn. Ísland sigrar Frakkland en Frakkar vinna HM. Þannig unnu Hollendingar Eurovision í gær og má segja að þeir hafi sigrað hin löndin 25.

Matthías Tryggvi Haraldsson og félagar hans í Hatara hafa haldið því hátt á lofti í viðtölum undanfarnar vikur að þeir ætluðu að sigra Eurovision. Lítil málvilla, skiptir engu máli nema kannski fyrir fámennar Facebook-grúppur um málfar.

Íslenskur blaðamaður gaukaði því að Matthíasi um daginn að hann væri að nota orðið sigra á rangan hátt. Maður sigraði bara andstæðing, en ekki keppni.

Matthías var fljótur að til svars, óræður á þann hátt að ekki er skýrt hvort um grín sé að ræða, og benti á að kannski væri það Eurovision sem að Hatari væri að reyna að sigra. Leggja að velli.

Hatari vann svo sannarlega ekki Eurovision en lenti í tíunda sæti sem er besti árangur Íslands í áratug. En sigraði Hatari mögulega Eurovision?

Um það verða jafnskiptar skoðanir og á átökum Ísraela og Palestínumanna. Hatari skráði sig í það minnsta til leiks í Söngvakeppnina heima á Íslandi, vann hana, greindi frá boðskap sínum og andstöðu sinni við hernám Ísraela í Palestínu.

Hér úti hafa þeir dansað á línu í viðtölum við fjölmiðla sem þó hafa getað rifjað upp fyrri ummæli. Þannig að skoðun þeirra var alveg ljós. En hún varð kristaltær í gærkvöldi þegar líklega um 200 milljónir manna, sem fæstar hafa heyrt um íslensku hljómsveitina Hatara, varð þess vís að hljómsveit frá Íslandi stæði með Palestínu í baráttunni við Ísrael.

Eurovision bannar pólitískan áróður í keppnum sínum. Hatari braut reglurnar og ekki að sjá að Eurovision hafi neinar leiðir til að refsa sveitinni.

Því má kannski spyrja hvort að Hatari hafi komið, séð og SIGRAÐ Söngvakeppni Evrópskra sjónvarpsstöðva, Eurovision?


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×