Tilkynnt var um eld í vélarrúmi Sóleyjar á tíunda tímanum í gærkvöldi en skipið varð í kjölfarið vélarvana. Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LIF, varðskipið Týr, togarinn Múlaberg og björgunarsveitir voru kallaðar út til aðstoðar.
Þyrlan hífði tvo skipverja Sóleyjar um borð um miðnætti og flutti þá til Akureyrar. Sex skipverjar eru því enn um borð í skipinu.
Áhöfnin á TF-LIF gisti á Akureyri í nótt en af öryggisástæðum var ákveðið að þyrlan yrði til taks fyrir norðan. Múlaberg dregur nú Sóleyju Sigurjóns til hafnar á Akureyri.
