Dómararennslið í úrslitum Eurovision stendur nú yfir í Expo Tel Aviv höllinni. Um er að ræða búningarennsli og eiginlega generalprufu fyrir sjónvarpsútsendinguna annað kvöld. Nema dómnefndir í þátttökulöndunum 41 horfa á og gefa einkunnir sínar.
Dómnefndin er skipuð fimm aðilum, yfirdómara og fjórum til viðbótar. Dómarar eiga að hafa fernt sérstaklega í huga þegar þeir greiða atkvæði sín:
-sönggeta söngvarans
-sviðsframkoman
-frumleiki og útsending lags
-heildarmynd atriðsins
Dómnefnd leggur mat á öll atriði keppninnar nema frá samlöndum sínum.
Til að gæta þess að dómnefndir fari að reglum og gæti sanngirni er fylgst með störfum dómnefndar í hverju landi fyrir sig. Þá áskilja Samtök evrópskra sjónvarpsstöðvar sér rétt til að mæta á fund dómnefndar tilefnislaust til að gæta að allt fari eftir settum reglum.
María Ólafsdóttir, fulltrúi Íslands í Eurovision árið 2015 með lagið Lítil skref, situr í íslensku dómnefndinni. Auk Maríu eru Hrafnhildur Halldórsdóttir útvarpskona, Örlygur Smári lagahöfundur, Jóhann Hjörleifsson trommari og Lovísa Árnadóttir upplýsingafulltrúi.
Atkvæði dómnefndar vegur 50% á móti símakosningunni annað kvöld. Greint verður frá niðurstöðu dómnefndarinnar þegar úrslitin úr símakosningunni verða ljós.
Nánar á vef Eurovision.
Fernt sem dómarar eiga að hafa í huga við stigagjöfina í Eurovision
