Nýliðar Skagamanna sitja á toppi Pepsi Max deildar karla í knattspyrnu eftir 2-0 sigur á FH-ingum á Akranesi í gærkvöldi.
ÍA hefur unnið Íslandsmeistara Vals og stórlið FH í síðustu deildarleikjunum sínum og hefur heillað marga með frammistöðu sinni í upphafi Íslandsmótsins.
Þetta er hins vegar ekki í fyrsta sinn sem Skagamenn koma upp í efstu deild með látum. Þetta er nefnilega í þriðja skipti sem Skagamenn sitja sem nýliðar í efsta sætinu eftir fjórar umferðir og svo voru þeir í öðru sæti eftir fjóra leiki á mjög sögulegu nýliðatímabili fyrir 27 árum síðan.
Þeir eru einu nýliðarnir sem hafa orðið Íslandsmeistarar (1992) og Skagamenn voru með fullt hús stiga eftir fjórar umferðir þegar þeir komu upp í deildina sumarið 2012.
Það sem liðin 2012 og liðið í ár eiga sameiginlegt að í báðum liðum var Jóhannes Karl Guðjónsson í aðalhlutverki hjá Skagaliðinu.
Hann er núna á fyrsta ári með Skagamenn í Pepsi Max deildinni en fyrir sjö árum var hann að koma heim eftir meira en áratug í atvinnumennsku. Samtals hafa þessi tvö nýliðalið með Jóhannes Karl í fararbroddi fengið 22 stig af 24 mögulegum í fyrstu fjórum umferðunum.
Skagamenn voru kannski með fleiri stig eftir fjóra leiki á nýliðaárinu 2012 (12 á móti 10) en liðið í ár skoraði fleiri mörk í fyrstu fjórum leikjum sínum (9 á móti 8). Skagamenn hafa skorað tvö mörk eða fleiri í öllum fjórum leikjum sínum í sumar. Skagamenn eru farnir að skora mörkin á ný sem gleður marga.
Skagamenn byrjuðu einnig mjög vel þegar þeir voru nýliðar í deildinni sumarið 1969. Skagaliðið varð þá í efsta sætinu eftir fjórar umferðir en endaði síðan í öðru sæti um haustið. Þeir unnu síðan Íslandsmeistaratitilinn sumarið 1970.
Stig og mörk eftir fyrstu fjóra leikina hjá síðustu nýliðaliðum ÍA:
2019 - 10 stig og 9 mörk (1. sæti)
2015 - 4 stig og 3 mörk (10. sæti)
2012 - 12 stig og 8 mörk (1. sæti)
1992 - 8 stig og 6 mörk (2. sæti)
1969 - 5 stig og 6 mörk (1. sæti)
