Nokkur umræða hefur skapast um myndina og þá sér í lagi áletrunina í Facebook-hópnum Karlar gera merkilega hluti, þar sem í eru um níu þúsund manns, sem og víðar.
Forsetahjónin fóru tveggja daga opinbera heimsókn til Reykjanesbæjar í byrjun mánaðar og í kveðjunni þakkar bæjarstjórinn Kjartan Már Kjartansson þeim fyrir komuna fyrir hönd bæjarstjórnar og íbúa Reykjanesbæjar.
Fengu að gjöf frá notendum Hæfingarstöðvar
Kjartan segir í samtali við Vísi að forsetahjónin hafi fengið svunturnar að gjöf frá notendum Hæfingarstöðvarinnar í bænum, sem þjónar meðal annars hlutverki verndaðs vinnustaðar.Hann segir að myndin með kveðjunni hafi ekki verið valin vegna orðalagsins á svuntunum. „Það var vegna þess að hún var tekin í Hæfingarstöðinni og við vildum sýna þeim þá virðingu að hafa mynd úr þeirri heimsókn. Ég get alveg fallist á það, svona eftir á að hyggja, að þetta hafi verið óheppilegt og að við hefðum átt að rýna betur í þetta,“ segir Kjartan.
Bæjarstjórinn segir að heimsókn forsetahjónanna hafi annars verið frábær. „Reykjanesbær skartaði sínu fegursta í veðri og þau voru afar ánægð með allt sem þau sáu og heyrðu. Allir hér voru sömuleiðis afar ánægð með að fá þau í heimsókn,“ segir Kjartan Már.
