Fáránleikarnir Þórarinn Þórarinsson skrifar 10. maí 2019 07:00 Ég fylgist eins og allir hinir spenntur með dramatískum dauðateygjum Game of Thrones sem rista nú svo djúpt í sálarlíf áhorfenda að jafnvæl æðrulausir eru gengnir af göflunum og hinir óstöðugri orðnir vitstola. Mér tekst þó enn að halda sæmilegum sönsum þótt áhyggjur mínar af honum Tyrion séu orðnar all nokkrar. Aðallega vegna þess að við sem drekkum og vitum hluti stöndum saman. Þegar tveir þættir og um það bil tvær klukkustundir eru eftir tórir dvergurinn enn og ég er eiginlega orðinn spenntari fyrir sturluðum æsingi og botnlausri frekju samfélagsmiðlakynslóðarinnar sem froðufellir eftir hvern þátt vegna þess að handritshöfundarnir dirfðust að hafa þetta nú ekki allt nákvæmlega eftir þeirra höfði. Hinn átti að drepast en ekki þessi og þá átti viðkomandi ekki að drepast svona heldur hinsegin og það var ekkert þessi sem átti að drepa þennan heldur hinn eða einhver allt annar. Hafa þessi ósköp ekki gengið út á að allir drepa alla og þá helst þá sem eru flestum harmdauði? Síðan var nú aldeilis tilefni til þess að fárast yfir því að allt í einu birtist á fundi í Winterfell pappamál undan Starbucks-kaffi og eyðilagði allt með því að minna á að Krúnuleikarnir eru sko bara í þykjustunni. Gott ef herskari þjófa sem hlóðu þættinum niður ólöglega af netinu hafi barasta ekki krafið HBO um afsökunarbeiðni, jafnvel endurgreiðslu? Þessi æsingur, alviska og frekja minnir óþægilega mikið á helfrosinn uppvakningaherinn sem ólmast á sömu slóðum gegn þriðja vitsugupakkanum og eiginlega vandséð hvorum megin veggjarins raunveruleikatengingarnar eru tæpari en ekki fer á milli mála að bægslagangurinn í sjónvarpssjúklingunum er öllu meinlausari. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Birtist í Fréttablaðinu Þórarinn Þórarinsson Mest lesið Lukka Sjálfstæðisflokksins Inga María Hlíðar Thorsteinson Skoðun Hlíðarendi – hverfið mitt Freyr Snorrason Skoðun Má skera börn? Magnea Gná Jóhannsdóttir Skoðun Jens er rétti maðurinn í brúna! Anton Berg Sævarsson Skoðun Hver er betri sem formaður Sjálfstæðisflokksins? Þórir Garðarsson Skoðun Stuðningur fyrir börn í vanda getur verið lífsbjörg Stefán Guðbrandsson Skoðun Reykurinn sást löngu fyrir brunann! Davíð Bergmann Skoðun Strandveiðar – nýliðun hægri vinstri Steindór Ingi Kjellberg Skoðun Löggjafinn brýtur á skólabörnum (grein 1) Valdís Ingibjörg Jónsdóttir Skoðun Angist og krabbamein Auður E. Jóhannsdóttir Skoðun
Ég fylgist eins og allir hinir spenntur með dramatískum dauðateygjum Game of Thrones sem rista nú svo djúpt í sálarlíf áhorfenda að jafnvæl æðrulausir eru gengnir af göflunum og hinir óstöðugri orðnir vitstola. Mér tekst þó enn að halda sæmilegum sönsum þótt áhyggjur mínar af honum Tyrion séu orðnar all nokkrar. Aðallega vegna þess að við sem drekkum og vitum hluti stöndum saman. Þegar tveir þættir og um það bil tvær klukkustundir eru eftir tórir dvergurinn enn og ég er eiginlega orðinn spenntari fyrir sturluðum æsingi og botnlausri frekju samfélagsmiðlakynslóðarinnar sem froðufellir eftir hvern þátt vegna þess að handritshöfundarnir dirfðust að hafa þetta nú ekki allt nákvæmlega eftir þeirra höfði. Hinn átti að drepast en ekki þessi og þá átti viðkomandi ekki að drepast svona heldur hinsegin og það var ekkert þessi sem átti að drepa þennan heldur hinn eða einhver allt annar. Hafa þessi ósköp ekki gengið út á að allir drepa alla og þá helst þá sem eru flestum harmdauði? Síðan var nú aldeilis tilefni til þess að fárast yfir því að allt í einu birtist á fundi í Winterfell pappamál undan Starbucks-kaffi og eyðilagði allt með því að minna á að Krúnuleikarnir eru sko bara í þykjustunni. Gott ef herskari þjófa sem hlóðu þættinum niður ólöglega af netinu hafi barasta ekki krafið HBO um afsökunarbeiðni, jafnvel endurgreiðslu? Þessi æsingur, alviska og frekja minnir óþægilega mikið á helfrosinn uppvakningaherinn sem ólmast á sömu slóðum gegn þriðja vitsugupakkanum og eiginlega vandséð hvorum megin veggjarins raunveruleikatengingarnar eru tæpari en ekki fer á milli mála að bægslagangurinn í sjónvarpssjúklingunum er öllu meinlausari.