Erlent

Hvíta húsið skipar fyrrverandi starfsmönnum að hunsa þingið

Kjartan Kjartansson skrifar
Hicks með Trump forseta. Hún hætti störfum í Hvíta húsinu í loks mars í fyrra.
Hicks með Trump forseta. Hún hætti störfum í Hvíta húsinu í loks mars í fyrra. Vísir/EPA
Tveimur fyrrverandi starfsmönnum Hvíta hússins hefur verið skipað að virða stefnur Bandaríkjaþings um gögn að vettugi. Frestur sem dómsmálanefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings hafði gefið til að afhenda gögnin rann út í morgun.

Nefndin stefndi Hope Hicks, fyrrverandi samskiptastjóra Hvíta hússins og einum nánasta ráðgjafa Donalds Trump forseta, og Annie Donaldsson, fyrrverandi starfsmannastjóra Donalds McGahn, fyrrverandi yfirlögfræðings Hvíta hússins, um gögn í síðasta mánuði.

Stefnurnar tengjast rannsókn nefndarinnar á mögulegri misbeitingu valds, spillingu og hindrun á framgangi réttvísinnar, að sögn Washington Post. Hicks og Donaldson var einnig stefnt til að bera vitni fyrir nefndinni síðar í þessum mánuði.

Nú hefur Hvíta húsið skipað þeim báðum að vinna ekki með þingnefndinni, að sögn Jerrys Nadler, formanns nefndarinnar. Demókratar fara með meirihluta í fulltrúadeildinni og nefndinni. Hicks hafi þó samþykkt að afhenda gögn frá þeim tíma sem hún vann fyrir forsetaframboð Trump.

„Forsetinn hefur engan lagalegan grundvöll til að koma í veg fyrir að þessi vitni verði við bón okkar. Við munum halda áfram að leita eftir sanngjörnum ráðahag um þessar og allar rannsóknarkröfur okkar og ætlar sér að halda þessum málum til streitu þegar við fáum vitnisburð bæði frú Hicks og frú Donaldson,“ segir Nadler.

Hvíta húsið hefur að miklu leyti hætt að virða rannsóknarheimildir Bandaríkjaþings undanfarin misseri. Áður hefur það skipað bæði McGahn og William Barr, dómsmálaráðherra, að neita að verða við stefnum þess. Líklegt er að málin eigi eftir að fara alla leið fyrir Hæstarétt Bandaríkjanna. Fulltrúadeildin mun að líkindum greiða atkvæði um að ávíta Barr og McGahn fyrir að sýna þinginu óvirðingu í næstu viku.

Donaldson var eitt af lykilvitnum Rússaransóknar Roberts Mueller, sérstaka rannsakanda dómsmálaráðuneytisins. Hún skrifaði ítarleg minnisblöð um samtöl McGahn og forsetans. Nefndin telur einnig að Hicks hafi vitneskju um mörg þeirra atriða sem hún rannsakar nú.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×