Innlent

Bóta­skylda Jóns Ár­sæls vegna Para­dísar­heimtar stað­fest

Sylvía Hall skrifar
Í þættinum sem um ræðir var talað við konu sem afplánaði dóm á Sogni.
Í þættinum sem um ræðir var talað við konu sem afplánaði dóm á Sogni. FBL/Ernir
Bótaskylda Jóns Ársæls Þórðarsonar og Ríkissjónvarpsins gagnvart konu sem var viðmælandi og umfjöllunarefni í einum þátta Paradísarheimtar, þáttaraðar sem sýnd var á RÚV í vetur, hefur verið viðurkennd. Málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Samkvæmt frétt á vef RÚV er málið í sáttaferli en bæði lögmenn RÚV og konunnar verjast allra fregna af málinu og segja það vera á viðkvæmu stigi. Ekki er vitað hvaða kröfu konan gerir í málinu en forsvarsmenn Ríkisútvarpsins vildu ekki tjá sig um málið.

Í þættinum sem um ræðir var talað við konu sem afplánaði dóm á Sogni. Hún var þrítug þegar þátturinn var tekinn upp og ræddi hún þar baráttu sína við fíkn og erfið uppvaxtarár. Þátturinn fékk mikla umfjöllun eftir að hann var sýndur og þótti umdeildur.

Þættirnir oft sagðir dansa á línunni 

Þáttaröðin Paradísarheimt vakti mikla athygli fyrir viðkvæm og umdeild umfjöllunarefni á sínum tíma. Meðal annars var tekið viðtal við íslenska konu sem skilgreinir sig sem þjóðernissinna og sagðist hún ekki kippa sér upp við það að vera kölluð nasisti. Var RÚV harðlega gagnrýnt fyrir að gefa slíkum skoðunum hljómgrunn í sjónvarpi.

Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri RÚV, sagði það koma skýrt fram í þeim þætti að sjónarmiðin væru alfarið viðmælandans. Markmið þáttarins væri að ljá fólki rödd sem hefði verið utangáttar í samfélaginu eða talið á jaðrinum. Þættinum var í tvígang frestað þar sem upphaflega átti að sýna hann á alþjóðlegum minningardegi um helförina.


Tengdar fréttir

RÚV og Jón Ársæll dregin fyrir dóm

Kona sem var viðmælandi og umfjöllunarefni í einum þátta sjónvarpsþáttaraðar Jóns Ársæls Þórðarsonar, Paradísarheimt, hefur höfðað mál gegn sjónvarpsmanninum góðkunna og Ríkisútvarpinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×