Vigdís tjáði sig um málið á Facebook-síðu sinni. „Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu er beðinn að hlutast til um að ráðuneytinu verði send öll gögn málsins og athugasemdir nefndarinnar við kæruna ef einhverjar eru. Ráðuneytið sendir kæruna ekki aftur til nefndarinnar og virðist ætla að taka hana sjálft til efnismeðferðar,“ skrifaði Vigdís.
Áður hafði sýslumaður vísað kæru Vigdísar frá á þeim grundvelli að kæran hafi komið of seint en í júní felldi dómsmálaráðuneytið ákvörðun sýslumanns úr gildi og lagði fyrir hana að skipa þriggja manna nefnd til að úrskurða um kæruefni. Sú nefnd komst að sömu niðurstöðu og sýslumaður og var kærunni því aftur vísað frá.
Í lok júní kærði Vigdís úrskurð kærunefndarinnar og 2. júlí barst henni bréf frá dómsmálaráðuneytinu þar sem fram kemur að ráðuneytið óski eftir að fá öll gögn málsins og athugasemdir nefndarinnar við kæruna ef einhverjar eru.
Forsaga málsins er sú að Persónuvernd komst að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið gætt að persónuverndarákvæðum í aðgerðum Reykjavíkurborgar til að auka kosningaþátttöku. Vigdís kærði því framkvæmd kosninganna á þeim grundvelli að aðgerðir Reykjavíkurborgar hafi verið ólögmæt íhlutun þáverandi meirihluta fyrir kosningarnar.