Ökumaður olíuflutningabílsins sem valt á Öxnadalsheiði var fluttur með sjúkrabifreið á sjúkrahúsið á Akureyri í dag. Var ökumaðurinn með meðvitund en talsvert slasaður.
Þyrla Landhelgisgæslunnar hafði verið kölluð út vegna slyssins en ákveðið var að afturkalla útkallið og flytja manninn með sjúkrabifreið á sjúkrahúsið á Akureyri.
Vinna á vettvangi slyssins á Öxnadalsheiði stendur enn yfir en þar er unnið að því að hreinsa upp þá olíu sem lak úr tanki olíuflutningabílsins. Voru um 30 þúsund lítrar af olíu á tanki bílsins þegar hann valt og hafði talsvert lekið úr honum áður en slökkviliðsmenn náðu að hefta lekann.
Bændur sem voru með þeim fyrstu á vettvang náðu að stífla Grjótá nærri vettvang slyssins en olía hafði þá lekið í ána.
Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði Akureyrar varð slysið ekki á vatnsverndarsvæði.
Uppfært klukkan 15:13:
Í fyrri útgáfu fréttarinnar kom fram að maðurinn hafi verið fluttur með sjúkraflugi frá Reykjavík til Akureyrar. Voru þær upplýsingar fengnar frá Landhelgisgæslunni en það reyndist ekki vera rétt.

