Körfubolti

Michael Jordan trúir því að Zion muni „sjokkera“ heiminn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zion Williamson.
Zion Williamson. Getty/Ethan Miller
Zion Williamson er ekki búinn að spila einn leik í NBA-deildinni en hann komst í gær í úrvalshóp þegar hann samdi við Jordan Brand hjá Nike.

Skóframleiðendur hafa verið í miklum eltingarleik við Zion Williamson sem er þegar orðinn stórstjarna í bandarísku íþróttalífi eftir tilþrifamikinn menntaskólaferil og eitt ár með háskólaliði Duke.

Zion var boðið gull og græna skóga en á endanum kom ekkert annað til greina en að semja við fyrirtæki uppáhalds körfuboltamannsins síns. Bandarískir fjölmiðlar höfðu heimildir fyrir því að Zion hefði getað fengið meiri pening annars staðar en að hann hafi vilja spila í Jordan skóm.





Zion Williamson er nú í hópi með leikmönnum eins og Russell Westbrook, Jayson Tatum, Blake Griffin og Chris Paul sem allir hafa gert samning við Jordan Brand hjá Nike.

Michael Jordan er einn aðalmaðurinn á bak við ofurvinsældir Nike og hann hefur mikla trú á nýliða New Orleans Pelicans.





„Ótrúleg einbeitni, karakter og spilamennska Zion eru hvetjandi,“ sendi Michael Jordan frá sér í yfirlýsingu vegna samningsins.

„Hann er lykilmaður í hópi nýrra hæfileikaríkra leikmanna NBA-deildarinnar og mun hjálpa okkur að fara með okkar vöru inn í framtíðina. Hann sagði við okkur að hann ætlaði að sjokkera heiminn og bað okkur um að trúa á sig. Við trúum,“ sagði Jordan.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×