Fjórir voru fluttir með þyrlu Landhelgisgæslunnar á sjúkrahús í Reykjavík eftir alvarlegt umferðarslys á Suðurlandsvegi í Eldhrauni í kvöld. Þjóðveginum var lokað um tíma vegna slyssins en hann var opnaður aftur á tíunda tímanum, samkvæmt upplýsingum lögreglu. Aðgerðum lögreglu á vettvangi er lokið.
Í fyrstu tilkynningu frá lögreglunni sagði að ekki væri hægt að veita frekari upplýsingar um slysið að svo stöddu. Ökumönnum var bent á hjáleið um Meðalland. Klukkan 21:30 greindi lögregla frá því að umferð hefði aftur verið hleypt um veginn og að vettvangsvinnu lögreglu væri lokið.
Í frétt Ríkisútvarpsins var sagt að fjórir hafi verið í bíl sem valt og endaði nokkuð frá þjóðveginum.
Samkvæmt upplýsingum Landhelgisgæslunnar lenti TF-LÍF á slysstað um klukkan 21:00. Fjórir voru fluttir með þyrlunni á sjúkrahús í Reykjavík, samkvæmt upplýsingum Heilbrigðisstofnunar Suðurlands.
Fréttin hefur verið uppfærð.
Þyrla sótti slasaða í alvarlegu slysi í Eldhrauni
Kjartan Kjartansson skrifar
