

Forstjóri álversins í Straumsvík gerir ráð fyrir töluverðu fjárhagslegu tjóni eftir að slökkt var á einum af þremur kerskálum álversins í gær.
Stór hluti af álframleiðslu álversins í Straumsvík var stöðvaður í nótt eftir að einum af þremur kerskálum þess var lokað af öryggisástæðum. Ástæðan er sú að álverið hefur þurft að nota annað súrál en áður vegna umróts á heimsmörkuðum. Þetta er í annað skipti sem kerskála er lokað í álverinu síðan álframleiðsla hófst þar fyrir fimmtíu árum.
Stjórnendur álversins í Straumsvík héldu upplýsingafund með starfsfólki álversins um stöðuna í morgun. Nýtt súrál kom í verksmiðjuna í gær og verður það unnið í kerskálum eitt og tvö á næstunni. Sérfræðingur í orkumálum segir stjórnendur álversins undir miklum þrýstingi að koma rekstri kerskála þrjú aftur í rekstur. Ef það dragist lengi geti það þýtt milljarða tjón fyrir verksmiðjuna og Landsvirkjun.