Hópur björgunarfólks sótti slasaða konu í hlíðar Fjarðardals við Seyðisfjörð á tólfta tímanum í gærkvöldi. Konan var á göngu þegar hún datt og meiddist í baki. Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð á vettvang en ekki reyndist þörf að nýta hana þegar upp var staðið.
Tilkynningar um neyðarköll úr fjallshlíðum ofan við golfvöllinn á Seyðisfirði bárust um klukkan tíu og var björgunarfólk komið á vettvang um tuttugu mínútum síðar. Konan fannst um tuttugu mínútur í ellefu, talsvert slösuð ofan í læk.
Í tilkynningu frá Landsbjörgu segir að konan hafi verið sárþjáð þegar sjúkrafólk og lækni bar að gerði en unnt hafi verið að stilla verki hennar og koma henni í kjölfarið í sjúkrabíl um klukkan hálf eitt.
Var hún flutt til Egilsstaða þaðan sem beið hennar sjúkraflug til Reykjavíkur.
Sóttu slasaða konu á Seyðisfjörð
Vésteinn Örn Pétursson skrifar
