Enski boltinn

Claudio Bravo varði frá Wijnaldum og tryggði City Samfélagsskjöldinn

Anton Ingi Leifsson skrifar
Bravo ver frá Wijnaldum.
Bravo ver frá Wijnaldum. vísir/getty
Manchester City vann í dag Samfélagsskjöldinn á Englandi í sjötta sinn er liðið hafði betur gegn Liverpool í vítaspyrnukeppni.

Staðan eftir venjulegan leiktíma var 1-1 en í vítaspyrnukeppninni varði Claudio Bravo eitt víti Liverpool á meðan Englandsmeistararnir skoruðu úr öllum fimm vítum sínum.







Raheem Sterling kom Man. City yfir á tólftu mínútu. Flott aukaspyrnutaktík virkaði vel sem endaði með því að David Silva fleytti boltanum á Sterling sem kom City yfir gegn sínu gamla félagi.

Þannig stóðu leikar í hálfleik. City fékk svo dauðafæri til að tvöfalda forystuna er Sterling slapp einn í gegn á móti Alisson. Hann vissi ekki hvort að hann ætti að gefa boltann eða skjóta sjálfur og endaði á því að missa boltann í hendur Alisson.

Síðustu tuttugu mínúturnar byrjaði Liverpool að þjarma að Man. City. Virgil Van Dijk skaut boltanum í slá, Mohamed Salah skaut boltanum í stöng en jöfnunarmarkið kom loks á 78. mínútu.

Aftur kom markið eftir aukaspyrnu en Virgil Van Dijk kom boltanum á samherja sinn úr vörninni, Joel Matip, sem ýtti boltanum yfir línuna. Kyle Walker bjargaði svo að Liverpool kæmist í 2-1 með ótrúlegri björgun og lokatölur 1-1.







Því þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni. Man. City skoraði úr öllum sínum vítum en Georginio Wijnaldum lét Claudio Bravo verja frá sér. City vinnur því Samfélagsskjöldinn í sjötta sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira
×