Forstöðumaður fangelsisins sem Jeffrey Epstein sat í þegar hann framdi sjálfsvíg var færður um starf á þriðjudag. Auk þess voru tveir fangaverðir sem áttu að fylgjast með Epstein þegar hann lést sendir í leyfi þar til rannsókn yfirvalda á andláti hans lýkur. Þetta kemur fram á vef fréttastofu AP.
Fregnir hafa borist um að fangaverðir sem störfuðu á deild fangelsisins þar sem Epstein var haldið hafi unnið „gífurlega“ yfirvinnu vegna starfsmannaskorts morguninn sem hann fannst látinn. Þá hefur William Barr, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, sagt að alvarlegir misbrestir hafi verið í alríkisfangelsinu og boðaði hann ítarlega rannsókn á því hvernig dauða hans bar að á mánudag.
Fangelsisyfirvöld tóku Epstein af svokallaðri sjálfsvígsvakt þrátt fyrir að hann hafi fundist meðvitundarlaus í klefa sínum í síðasta mánuði með áverka á hálsi. Þá átti að kíkja inn til hans á 30 mínútna fresti en það hafði ekki verið gert í nokkra klukkutíma áður en hann fannst látinn á laugardagsmorgunn.
Forstöðumaður fangelsisins, Lamine N‘Diaye, hefur verið tímabundinn skipaður í starf við svæðisskrifstofu Fangelsismálastofnunar Bandaríkjanna af Barr. Hann mun sinna starfinu þar til rannsókn alríkisyfirvalda mun ljúka. Verðirnir tveir sem voru sendir í leyfi hafa ekki verið nafngreindir.
Epstein var handtekinn þann 6. júlí síðastliðinn og hefur verið í haldi lögreglu síðan. Hann var sakaður um að hafa greitt ólögráða stúlkum fyrir kynlíf á heimilum hans í Manhattan og Flórída á árunum 2002 til 2005. Epstein neitaði sök í öllum ákæruliðum.
Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið. Þjálfaðir og reynslumiklir sjálfboðaliðar á öllum aldri svara þeim símtölum og spjöllum sem berast. Fullum trúnaði er heitið. Nánari upplýsingar hér.