Tveir strandveiðibátar rákust saman við Langanes á Norðausturlandi í morgun með þeim afleiðingum að leki kom að öðrum bátnum.
Björgunarskip frá Raufarhöfn hefur verið sent á staðinn og þá voru björgunarsveitar- og slökkviliðsmenn frá Þórshöfn sendir með hraðskreiðum fiskveiðibát á vettvang og komu að bátunum nú skömmu fyrir klukkan tólf.
Að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingarfulltrúa Slysavarnafélagsins Landsbjargar atvikaðist árekstur bátanna þannig að annar báturinn var vélarvana og kom hinn til aðstoðar. Ekki er talið að neinn hafi slasast en lekinn var þó nokkur sem bátsverjar hafa að einhverju leiti náð tökum á.
Uppfært klukkan 13:09
Björgunarskip frá Raufarhöfn er komið á staðinn ásamt björgunarsveitar- og slökkviliðsmönnum frá Þórshöfn. Búið er að draga strandveiðibátana tvo í land.
Tveir bátar rákust saman við Langanes
Jóhann K. Jóhannsson skrifar
