Engar fastar lokanir verða á götum vegna komu Indlandsforseta til landsins eins og var við heimsókn Mikes Pence í síðustu viku.
Hann fær þó lögreglufylgd hvert sem hann fer, líkt og Angela Merkel og aðrir þjóðhöfðingjar sem heimsækja landið, með tilheyrandi truflunum á umferð. Óvenju mikið hefur verið um opinberar heimsóknir upp á síðkastið og mikið að gera hjá umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
„Þetta verður náttúrulega ekkert í líkingu við Pence en þetta verður svona meira í áttina að Merkel,“ segir Guðbrandur Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn umferðardeildar lögreglunnar, spurður út í viðbúnað vegna heimsóknarinnar. „Það verður umferðarfylgd á öllum ferðum hans og þar af leiðandi truflun á umferð svona rétt á meðan fylgdin er að fara í gegn en svo opnast allt aftur.“
Shri Ram Nath Kovind, forseti Indlands, kemur í opinbera heimsókn til landsins í dag eins og greint hefur verið frá. Hann mun hitta Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands, á Bessastöðum á morgun og að því loknu halda opinn fyrirlestur í Háskóla Íslands, sem ber yfirskriftina Indland og Ísland fyrir græna plánetu.
