Lægðin frá því í gær stjórnar ennþá veðrinu austast á landinu og nálgast önnur lægð nú landið úr vestri. Gengur því vindur úr suðaustanátt yfir landið sem nær átta til þrettán metrum á sekúndu fyrir hádegi og fer að rigna. Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings í morgun.
Síðdegis snýst vindur svo til suðvesturs og úrkoman verður skúrakenndari, og það bætir frekar í vind um landið suðvestanvert, eða vestan þrettán til tuttugu metrar á sekúndu, hvassast við ströndina. Í nótt dregur svo úr vestanáttinni og úrkomu, en gengur í vestan fimmtán til tuttugu metra á sekúndu suðaustanlands. Hiti fimm til tíu stig að deginum, en allvíða næturfrost inn til landsins.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á mánudag:
Norðvestan 3-8 m/s og rigning með köflum, en slydda til fjalla, um norðanvert landið. Vestan 8-15 sunnantil og víða bjart veður. Dregur úr vindi um kvöldið. Hiti 4 til 9 stig, en allvíða næturfrost inn til landsins.
Á þriðjudag:
Hæg breytileg átt og víða bjartviðri, en dálítil væta með norðurströndinni. Þykknar upp syðst seint um kvöldið. Hiti 3 til 10 stig að deginum, hlýjast sunnantil.
Á miðvikudag:
Suðaustan 8-13 og ringing um sunnanvert landið, en hægari og þurrt norðantil. Hiti 5 til 10 stig.
Á fimmtudag, föstudag og laugardag:
Suðlæg eða breytileg átt og rigning í flestum landshlutum. Hiti 5 til 12 stig, hlýjast sunnanlands.
Önnur haustlægð gengur yfir landið
Eiður Þór Árnason skrifar
